151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að vinna þetta með þeim hætti að við erum með áætlaðar skatttekjur annars vegar á tekjuhliðinni og hins vegar erum við með áætlaðar tapaðar skattkröfur sem vinna á móti. Þetta er svona framsetningaratriði í sjálfu sér en er gagnsærra en ef við tækjum afskriftirnar með í tekjuáætlunina og sundurgreindum þetta ekki. Ég held að það sé gagn að því að horfa sérstaklega til þess hvað við þurfum að afskrifa á hverjum tíma af skattkröfum. Ætli það sé ekki hægt að segja sem svo að besta leiðin til að takmarka þörfina fyrir afskriftir skattkrafna sé að reyna að tryggja sem best almennt rekstrarumhverfi fyrirtækja, hafa efnahagslegan stöðugleika á landinu. Þá mun held ég þörfin fyrir afskriftir skattkrafna vera í lágmarki. Hins vegar þegar við förum í gegnum efnahagsdýfu eins og við erum í núna þá held ég að við þurfum að gera ráð fyrir því að ekki muni allir ná til lands eftir tekjufallið og það geti leitt til þess að skattkröfur í einhverjum tilvikum verði afskrifaðar. Það er sjálfsagt að fara nánar ofan í þetta og skoða í sögulegu samhengi en þarna kallast á áætlaðar skatttekjur eftir álagningu og síðan rauntölur sem oft á tíðum eru vegna gjaldþrots.

Varðandi Farice erum við að hugsa um að auka þar hlutafé til þess að tryggja fyrirtækinu eiginfjárstöðu í þeim tilgangi að geta fjármagnað lagningu á sæstreng. Það er töluvert mikil fjárfesting en botnrannsóknir í hafinu hafa staðið yfir og munu halda eitthvað áfram áður en hægt er að taka næstu skref. Ég get svo komið inn á stöðuna hjá Hörpu og varðandi erlendar fasteignir hér á eftir.