151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera talsmaður þess að ekki megi mikið út af bregða. Ég ætla að vera harður á því að þessi áætlun, þar sem við þurfum að byggja á ráðstöfunum til að ná markmiðum okkar ef hagvöxtur verður ekki meiri, sé ábyrg. Það eigi ekki að stefna að hærra skuldahlutfalli ríkisins en u.þ.b. 50%. Það væri óábyrgt að reyna að halda uppi lífskjörum landsmanna lengur en gert er ráð fyrir í þessari áætlun án þess að innstæða sé fyrir því. Við getum sannarlega tekið á okkur halla og það er rétt ráðstöfun í efnahagslegu samhengi að leyfa halla að myndast núna tímabundið til að styðja við hagkerfið. En þegar áhrifa veirunnar hættir að gæta, þegar hún hefur horfið úr samfélaginu, verðum við að taka stefnuna rakleitt á að hætta skuldasöfnun. Það getur tekið einhvern tíma og það verður að leggja af stað tímanlega þannig að ekki má mikið út af bregða.

Ég ætla sömuleiðis að halda á lofti því sjónarmiði að við Íslendingar getum ekki leyft okkur að skulda að jafnaði jafn mikið og önnur ríki þrátt fyrir að við höfum eigin gjaldmiðil. Það er vegna samsetningar hagkerfisins og þess að við erum útsett fyrir meiri sveiflum en fjölbreyttari hagkerfi. Það þýðir að við eigum áfram að byggja á skuldareglunum sem eru með stífari skuldaviðmið en aðrar þjóðir gera ráð fyrir. Við færðum fyrir því rök á sínum tíma og ég held að þau hafi sannað sig núna. Það sem virtist vera gríðarlegt svigrúm í ríkisfjármálum fyrir jafnvel 300 milljarða skuldasöfnunin — ímyndið ykkur 300 milljarða skuldasöfnun, áður en færi virkilega að reyna á skuldaregluna, þetta virtist vera gríðarlega mikið svigrúm — var skyndilega bara nóg fyrir árið 2020 og við verðum komin langt fram úr því árið 2021. Auðvitað erum við að tala um alveg fordæmalausar aðstæður og ótrúlega skuldasöfnun á litlum tíma. En þetta sýnir hve miklu skiptir að við séum (Forseti hringir.) með stíf skuldaviðmið og komum okkur rakleitt aftur inn undir reglur laganna þegar aðstæður hafa lagast.