151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vona heitt og innilega að séð verði til þess að þessi þjónusta skerðist ekki heldur batni. En það er annað í þessu. Nú er ekkert flug til Vestmannaeyja. Það hlýtur að vera rosalega bagalegt fyrir Vestmannaeyinga og ég spyr ráðherra: Hvaða lausn sér hann í þeim málum? Finnst honum ekki sjálfsagt að leyst verði úr því þannig að flugsamgöngur þangað verði tryggar? Á sama tíma og flugið liggur niðri þarna erum við að ræða borgarlínu sem er furðulegt fyrirbæri sem ég held að við ættum að fresta. Þróunin er það mikil og hröð að sú uppbygging, eins og reiknað er með að hún verði, verður örugglega óþörf. Allt of miklir peningar eru settir í þá uppbyggingu en á sama tíma er ekki verið að leysa umferðarvandann hér á höfuðborgarsvæðinu. Eins og ég hef margoft komið að áður á að leggja ofanbyggðaveg, og maður veltir því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum það hefur ekki verið leyst í eitt skipti fyrir öll. Þá þyrfti fólk ekki, þegar komið er inn á höfuðborgarsvæðið á leið út á Suðurnes, að fara í gegnum öll sveitarfélögin, nema Seltjarnarnes, til að komast leiðar sinnar. Þarna er líka enn eitt sem virðist ætla að verða draugur og það er Sundabrautin. Hún virðist alltaf vera einhvers staðar í umræðu en ekkert skeður. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að þarna verði eitthvað gert. Eða er þetta bara draumur í dós?