151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[16:53]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Förum aðeins yfir í loftslagsmálin. Ef við ætlum að einfalda þetta þá erum við með gríðarlega notkun en nýtum endurnýjanlega, umhverfisvæna og sjálfbæra orku. Ástæðan fyrir því að við mælumst hátt í útstreymi á hvern einstakling er sú að hér eru t.d. álver sem eru líka annars staðar í heiminum. (Gripið fram í.) — Af hverju grípur hv. þingmaður fram í fyrir mér? En annars staðar eru þau keyrð áfram með öðrum orkugjöfum sem kalla á miklu meiri mengun, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Það er ástæðan.

Getum við gert betur í umhverfismálum? Já. Eigum við að gera betur í umhverfismálum? Já. Ég hef skrifað um það og talað fyrir því og starfað að því frá því að ég byrjaði í stjórnmálum og hv. þingmaður veit að það var ekki alveg í gær sem sá sem hér stendur byrjaði. Það vantar ekkert upp á metnaðinn hvað það varðar en við eigum auðvitað að tala um hlutina eins og þeir eru og tala út frá staðreyndum.

Það er mér hulin ráðgáta hvernig í ósköpunum hv. þingmaður getur tengt ESB við varnarmálin. En það er alla vega gott að það eru einhverjir sem telja von í ESB, það er alla vega hægt að finna þá hér í þessum sal. Það er erfitt að finna þá annars staðar. Almenna reglan er sú að menn tala um þann mikla vanda sem steðjar að Evrópusambandinu. Og það er ekkert fagnaðarefni, þetta eru nágrannar okkar og við viljum ekkert annað en að þeim vegni vel. En það er mjög erfitt á þeim bænum og væri nú gaman að ræða það hér í þingsal. Kannski fáum við tækifæri til þess.

Herra forseti. Það er auðvitað okkar forgangsmál sem þjóðar að gæta að öryggis- og varnarmálum. Það hljóta allir að vera sammála um. Ef menn telja það fyrirkomulag sem er til staðar núna, að vera í Atlantshafsbandalaginu og með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin, (Forseti hringir.) ekki gott þurfa menn að koma með valkost. Ég veit ekki til þess að neinn í íslenskum stjórnmálum hafi komið fram með slíkan kost.