151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:25]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Út af EES-samningnum þá held ég að vísu að við höfum verið mjög lánsöm á þeim tíma að vera þar sem við vorum, við vorum í EFTA. Þá voru mörg önnur ríki í EFTA sem ætluðu sér ekki í ESB á þeim tíma, t.d. Svíþjóð, Finnland, Austurríki og auðvitað Sviss, það var talið að út af hlutleysisstefnu þess gæti það aldrei gengið í Evrópusambandið. Það var því mjög mikið jafnræði á milli EFTA og ESB á þeim tíma þegar menn settust niður. Þess vegna erum við EFTA-ríkin með okkar eigin eftirlitsstofnun, okkar eigin dómstól, þetta tvíhliða kerfi til jafns við Evrópusambandið, þó að það sé auðvitað miklu stærra.

Hvað varðar þessa hluti þá innleiddum við þessar reglur, m.a. svokallaða bókun 35, í upphafi og það hafa ekki verið neinir þeir hnökrar á EES-samningnum að það kalli á stórvægilegar breytingar. Það sem við höfum bent á í þessum málatilbúnaði — þetta er ekkert í fyrsta skipti og ekki í síðasta skipti sem slíkt gerist, það gerist nokkuð oft að ESA fylgi einhverjum málum eftir og síðan þurfum við að sjá hverjar lyktir málsins verða. En lífið snýst alltaf um valkosti. Ef við ætlum ekki að vera í EES, sem er auðvitað valkostur, þá þurfum við að spyrja: Hvað viljum við? Ég nefndi það áðan að þeir sem börðust harðast gegn EES-samningnum þegar hann var stofnaður, voru ESB-sinnar. Af hverju? Þeir töldu að eina leiðin fyrir okkur væri að fara í ESB, sem er 500 milljóna manna markaður, þó ekki væri nema bara út af viðskiptahagsmunum. Það væri erfitt fyrir okkur að halda hér uppi jafn fjölbreyttu atvinnulífi og raun ber vitni ef við hefðum ekki aðgang að þeim markaði. En lífið er bara þannig. Ég vildi gjarnan geta teiknað upp alla hluti eins og ég vildi hafa þá, en það er eitthvað í það, virðulegur forseti.