151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:48]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður er að vísa í þegar hún talar um að það vanti metnað varðandi EES. Mér finnst nefnilega enginn metnaður að tala bara en framkvæma ekki. Ég get alveg komið hér og sagt: Ég er búinn að framkvæma það. Þess sér stað í fjárlögum undanfarinna ára, þess sér stað í stefnumótun og í eftirfylgni. Hins vegar ætla ég ekki að segja að það sé búið að ná fullkomnun í því vegna þess að mér finnst eitthvað vera að þegar einhver segist vera búinn að ná fullkomnun í einhverju. Það má alltaf gera betur en ég get borið mig saman við hvern sem er og komið afskaplega vel út úr þeim samanburði þegar kemur að hagsmunagæslu í EES. Þá er ég ekki að tala um hvað ég ætla að gera heldur hvað ég er búinn að gera.

Varðandi loftslagsmálin, virðulegi forseti, þá eru þau alls staðar í okkar utanríkisstefnu. Á norðurslóðum, í norræna samstarfinu. Hver er einn lykilþátturinn í skýrslu Björns Bjarnasonar? Það eru loftslagsmálin. Aldrei fær maður gagnrýni á erlendum vettvangi fyrir það að við Íslendingar séum ekki að leggja næga áherslu á loftslagsmálin. Við erum að tvöfalda framlög í græna loftslagssjóðinn milli 2019 og 2021. Tvöfalda. Þannig að ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður er að fara (Gripið fram í.) hvað þetta varðar. Ég bara hvet hv. þingmann, að vísu tekur það svolítinn tíma, að lesa þær ræður sem ég hef flutt á alþjóðavettvangi. (RBB: Ég hef lesið þær allar.) Ef hv. þingmaður hefur lesið þær allar þá veit hún alveg um áherslur mínar í loftslagsmálum þegar ég tala fyrir hönd Íslands.

Það kemur hér fram að það er hækkun til öryggis- og varnarmála um 44 milljónir á næsta ári. Þau útgjöld hafa farið hækkandi af ástæðum sem ég fór yfir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni. Þegar kemur hins vegar að öryggis- og varnarmannvirkjunum (Forseti hringir.) er það ekki þannig að við berum stóran hlut af því, eins og ég hef farið yfir hér í þinginu. Við höfum tekið sérstaka umræðu um það, (Forseti hringir.) ég gerði það við hv. þm. Pál Magnússon, og ég er svo sannarlega til í að ræða öryggis- og varnarmál hvenær sem er.