151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[17:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég er einfaldur maður eins og oft hefur komið fram og vil gjarnan fá að vera í stóru línunum. Hvað mig sjálfan snertir held ég að það skili enda meiru en að kafa ofan í einstaka liði í fjármálastefnu og spyrja út í krónur og aura. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um ekki minni hluti en utanríkisstefnu Íslands og kannski ekki síst, þó að ég viti að hún sé ekki á málefnasviði hæstv. ráðherra, út í þjóðaröryggisstefnu. Ég veit þó að hæstv. ráðherra, sem fer með utanríkismál þjóðarinnar, kemur þar mjög nærri.

Einn af þeim lærdómum sem ég dreg af því herrans ári 2020 er að besta fjárfestingin í öryggismálum þjóðarinnar felist í virkri þátttöku í alþjóðastofnunum á hinu borgaralega sviði, á heilbrigðissviði — ég er að tala um Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, Sameinuðu þjóðirnar, norrænt samstarf o.s.frv. — frekar en í þessari úreltu, gamaldags hugsun sem tröllríður allt of mörgum húsum víða um heim, þ.e. hernaðarsamvinnu. Ég gæti bætt hér inn netöryggismálum og fleiru slíku. Erum við ekki að komast kannski á þann tímapunkt, forseti, að við þurfum að nýta tækifærin þegar lífið kastar þeim framan í okkur til að endurmeta eldgamlar og úreltar hugsjónir og horfa upp á nýtt á hlutina eins og í þessu tilviki?