151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvernig hæstv. félags- og barnamálaráðherra getur staðið kinnroðalaust í pontu Alþingis og kynnt þessa sveltistefnu sína til leiks. Mér finnst það óforskammað. Mér finnst ótrúlegt að hæstv. ráðherra geti sætt sig við að atvinnuleysisbætur haldist smánarlega lágar í stærstu atvinnuleysiskreppu sem við höfum upplifað.

Við vitum að a.m.k. 12.000 manneskjur eru nú þegar komnar á strípaðar atvinnuleysisbætur, bætur sem við vitum líka að duga ekki fyrir framfærslu. Allir nema vúdú-hagfræðingarnir í Sjálfstæðisflokknum og Samtökum atvinnulífsins vita líka að þessi sveltistefna ríkisstjórnarinnar gagnvart atvinnulausum í atvinnuleysiskreppu á einungis eftir að hefta hagvöxt enn frekar, lengja í kreppunni, auka ójöfnuð og auka fátækt.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig réttlætir hann þessa vitleysu fyrir sér? Ég vil taka það fram að ég er ekki að óska eftir því að heyra um lengingu tekjutengingar. Ég vil heldur ekki heyra minnst á vísitölulækkun upp á smotterí.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig getur hann réttlætt þetta fyrir þessum 12.000 manneskjum sem nú þegar eru á strípuðum bótum — og nota bene margt af þessu fólki á börn, hæstv. barnamálaráðherra — og hafa fjárhagsskuldbindingar og sjá fram á svarta framtíð? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að réttlæta þessa arfavitlausu sveltistefnu fyrir þeim?