151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[18:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hvet ráðherra bara til dáða í þessum efnum. Í fjármálaáætlun kemur fram að ríkisstjórnin vilji stuðla að aðgerðum sem dregið geta úr brotthvarfi frá námi og jafnframt að styðja við ungmenni sem ekki eru á vinnumarkaði, í skóla eða starfsþjálfun, en þau eru vissulega í áhættuhópi hvað varðar félagslega einangrun. Brotthvarf úr námi er mikið á Íslandi og getur haft veruleg áhrif á framtíðarmöguleika á vinnumarkaði. Samþykkt var í vor frumvarp þar sem farið var fram með úrræði sem kallast Nám er tækifæri sem gerir atvinnuleitendum kleift að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og framlög sett í að efla menntun í landinu. Í dag er Vinnumálastofnun heimilt að styrkja námsráðgjöf í eitt skólaár sem nemur tveimur önnum, enda haldi viðkomandi atvinnuleitandi áfram námi eftir að fyrstu önninni lýkur. Markmið slíkra vinnumarkaðsaðgerða er að koma í veg fyrir brotthvarf úr námi og tryggja um leið aukna og þéttari þjónustu skólanna. Stuðningur við atvinnulausa til náms og endurmenntunar til að mæta gífurlegum breytingum á vinnumarkaði næstu árin með svokallaðri fjórðu iðnbyltingu er því aldrei brýnni en nú og að fólk festist ekki í varanlegu atvinnuleysi.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Getur hann tekið undir með mér að mikilvægt sé að skoða hvort þetta úrræði sem fór af stað í sumar, Nám er tækifæri, verði gert varanlegt með einhverjum hætti eða álíka úrræði? Það muni til lengri tíma litið skila sér til framtíðar að efla fólk á vinnumarkaði í þeirri hröðu tækniþróun sem er í gangi með tilheyrandi fækkun starfa og breytingu á störfum en mun í leiðinni draga úr útgjöldum til atvinnuleysisbóta ef vel tekst til.