151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:05]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Í svarinu áðan láðist mér að segja að við útreikning á hækkun bóta ræður neysluverðsvísitala ef hún er hærri en launaútreikningur fjármálaráðuneytisins. Það er algerlega skýrt og á ekki að vera tilefni til misskilnings.

Hins vegar vil ég segja að það hafa verið gerðar breytingar gagnvart bæði öldruðum og örorkulífeyrisþegum, á sínum tíma og af núverandi ríkisstjórn, til að draga úr skerðingum í kerfinu. Inni í samanburðinum á tölunum sem ég nefndi áðan, að heildarútgjöld til málaflokksins fari úr 60 milljörðum upp í 87 milljarða á tíma áætlunarinnar til 2025, er samt sem áður að dregið hefur úr skerðingum.

Síðan vil ég ítreka að stóra verkefnið okkar, þegar við erum að taka hundruð milljarða af lánum til að standa undir tekjutapi ríkissjóðs vegna þess að við erum með mikið atvinnuleysi og skatttekjur hafa lækkað, er að verja stöðu þeirra hópa sem hv. þingmaður talar um. Eftir efnahagshrunið 2009 sáum við að ráðist var í niðurskurð gagnvart einmitt þessum hópum. Það er ekki gert í þessari áætlun. Það er ekki verið að leggja til niðurskurð með sama hætti og gert var. Og ég er mjög ánægður með það. En á sama tíma verðum við að viðurkenna (Forseti hringir.) að til að verja það er ríkissjóður að fara að taka hundruð milljarða af lánum (Forseti hringir.) á næstu árum.