151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[19:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Það er af ýmsu að taka í ansi viðamiklum kafla sem heyrir undir hæstv. ráðherra í þessari áætlun. Mig langar að nefna það sem mögulega er eitt stærsta verkefni þessa vetrar hjá ráðherranum, sem er lenging fæðingarorlofsins. Það er löngu tímabær og bráðnauðsynleg aðgerð. En það sem mig langar að vekja hér máls á er atriði sem ég hef dálitlar áhyggjur af, sem er hvað tekur við af fæðingarorlofinu. Þar er það jú auðvitað leikskólinn, en hann hefst sjaldnast við 12 mánaða aldur þar sem fæðingarorlofinu sleppir. Brúun bilsins á milli fæðingarorlofs og leikskóla er því nokkuð sem þarf að leysa á milli ríkis og sveitarfélaganna sem reka leikskólana.

Það sem ég hef áhyggjur af er hvar það mál stendur. Ég myndi vilja spyrja ráðherrann út í það hver innan ríkisstjórnarinnar sé með þann bolta hjá sér í dag, vegna þess að sú breyting var gerð á markmiðum hæstv. ráðherra frá fyrri fjármálaáætlun að markmið um það var fært úr kafla félagsmálaráðherra, þar sem málefni leikskóla féllu ekki undir málasvið hans samkvæmt forsetaúrskurði. En þegar við flettum yfir á leikskólakaflann hjá hæstv. menntamálaráðherra er ekki fjallað um það, heldur menntun leikskólakennara og ýmsa þætti sem snúa beint að ríkinu, ekki þá flóknu samninga sem þurfa að eiga sér stað á milli sveitarfélaga og ríkis varðandi það hvernig brúin er smíðuð milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Mig langar að biðja ráðherra að slá aðeins á þessar áhyggjur mínar með því að segja mér að það sé einhver með þennan bolta upp í Stjórnarráði.