151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[20:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég mun vera á landbúnaðarsviðinu. Ríkisstjórnin sýndi viðhorf sitt til landbúnaðar strax í fyrstu fjármálaáætlun sinni þar sem greinin hafði þá sérstöðu að vera sú eina þar sem gert var ráð fyrir því að jafnt og þétt yrði dregið úr framlögum. Bændur voru þar með eina stéttin sem selur ríkinu þjónustu sína sem mátti eiga von á viðvarandi kjararýrnun.

Mikilvægt er að hafa í huga að framlög til landbúnaðar lýsa í raun kjaraþróun bænda á sama hátt og framlög til ríkisstofnana lýsa tekjuþróun þeirra sem þar starfa. Nú halda stjórnvöld því fram að fjármálaáætlun geri ráð fyrir aukningu á árinu 2025 miðað við árið 2020. Þegar betur er að gáð er gert ráð fyrir samdrætti á tímabilinu 2021–2025 í fjármálaáætlun. Í ljós kemur að óvænt hækkun árið 2020, sem notað er til viðmiðunar, skýrist af endurskoðuðum garðyrkjusamningi og því að það ár voru verkefni færð frá öðrum sviðum yfir á landbúnað. Það er því afar villandi framsetning að nota árið 2020 með breyttum viðmiðum til samanburðar við þróunina á tímabilinu enda er viðurkennt í smáa letrinu að gert sé ráð fyrir lækkun framlaga til búvörusamninga upp á 624 millj. kr., þ.e. lakari kjörum bænda.

Þessi lækkunaráform ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára koma á sama tíma og sótt er að landbúnaði úr mörgum áttum samtímis. Í fyrsta lagi með óhagstæðum tollasamningi sem gerður var við Evrópusambandið, innflutningi á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum matvælum, auknum rekstrarkostnaði, óvenjulágu afurðaverði, óhagstæðum búvörusamningum og sífelldum straumi af nýjum reglugerðum sem oft er dýrt að bregðast við.