151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra út í almenna löggæslu. Það er lítils háttar samdráttur hér á milli ára í þeim málaflokki þótt hann sé misjafn milli lögregluembætta. Ég hef áður á þessum vettvangi lýst því ófremdarástandi sem ríkir hér í Reykjavík hvað þetta varðar. Löggæslan hér, þ.e. þjónusta við borgarana, hefur dregist gríðarlega saman alveg frá því um aldamót og fjöldi lögreglumanna á vakt til reiðu í almennri löggæslu er ekki sá sami og var fyrir 20 árum. Þetta er náttúrlega mjög alvarlegt vegna þess að þetta varðar öryggi borgaranna og við sjáum aukningu í brotaflokkum sem eru alvarlegir. En það sem veldur mestum áhyggjum, eða alla vega þeim sem hér stendur, er sú staðreynd að nú er verið að endurskipuleggja lögregluna í landinu, verið að byggja upp nýtt skipulag, og Alþingi er ekki þátttakandi í því. Ég sé að vísu frumvarp frá hæstv. ráðherra á þingmálaskrá. Nú eru sem sagt ráðuneyti dómsmála, ríkislögreglustjóri og ráðherrann að kokka upp nýtt skipulag fyrir lögreglu í landinu. Það er líklega í þriðja eða fjórða skipti sem slíkt er gert á 20 árum einhvers staðar í einhverjum skrifstofubyggingum fjarri Alþingi.

Ég tel, herra forseti, að Alþingi eigi að eiga virkan þátt í skipulagningu þess hvernig löggæslan í landinu er gagnvart hinum almenna borgara. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún hyggist auka fjárheimildir sérstaklega til lögreglunnar í Reykjavík þó að fjárlagafrumvarpið beri það ekki með sér, það gæti komið fram sem breytingartillaga frá henni sjálfri. Ég spyr líka hvort hún hyggist leita meira samráðs við Alþingi um uppbyggingu lögreglunnar til framtíðar.