151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:33]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna um þetta. Hér kemur hv. þingmaður inn á mjög mikilvægt mál sem snýr að liðskiptaaðgerðum. Það er mjög ánægjulegt að segja frá því að sett verður á fót liðskiptasetur við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og er áætlað að um 200 millj. kr. renni til húsnæðisbreytinga vegna þessa. Markmiðið er auðvitað að auka afkastagetu við liðskiptaaðgerðir og ég tel að þetta muni skipta miklu máli.

Ég er líka mjög ánægður með að sjá að við séum að nýta Heilbrigðisstofnunina á Vesturlandi akkúrat í þetta. Það skiptir líka máli að við getum eflt stofnanirnar úti á landi þó að stutt sé til Reykjavíkur frá Akranesi — sem ég þekki ágætlega, enda alinn þar upp, ekkert allt of langt frá. Áhersla okkar hefur verið á uppbyggingu opinberu þjónustunnar og, eins og ég rakti í ræðu minni, hefur áhersla verið lögð á að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað og draga úr þátttöku sjúklinga í kostnaði og allt þetta skiptir máli. Auðvitað hefur Covid-19 haft áhrif á þessa þjónustu eins og annað í heilbrigðiskerfinu. Það er eitthvað sem við horfum til. Ég er virkilega ánægður með að koma eigi á liðskiptasetri á Akranesi.