151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[13:51]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. starfandi heilbrigðisráðherra fyrir þessi svör og vil kannski geta þess að það er ekki síðra að hann sé akkúrat hæstv. umhverfisráðherra líka þar sem þessi þjónusta, utanspítalaþjónustan og sjúkraþyrlan og annað, mun hvað mest sinna ferðamönnum, t.d. ferðamönnum sem sækja þjóðgarðana okkar heim og okkar yndislegu náttúru, þannig að þetta er mjög brýnt. Ég vildi bara segja, áður en ég læt því lokið að fjalla um sjúkraþyrluna mikilvægu, að það kostar töluverðan undirbúning að koma verkefninu af stað. Þó að fjármagnið komi kannski ekki alveg á næsta ári þá held ég að hv. fjárlaganefnd ætti að íhuga hvort ekki væri rétt að sýna inn á fjármögnunina hið fyrsta svo undirbúningurinn geti átt sér stað og við séum tilbúin þegar ferðamennirnir koma aftur. Ég tel það gríðarlega mikilvægt.

Þá langar mig að snúa mér að öðru þessa síðustu mínútu sem ég hef, en það eru hjúkrunarheimilin. Það er mikið talað um að fjölgun hjúkrunarrýma og uppbygging þeirra sé ein stærsta áskorunin í fjármálaáætlun, sem ég tek heils hugar undir. En það er annað sem er líka í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar sem ég hef kannski meiri áhyggjur af og það er rekstrargrundvöllur hjúkrunarrýma, hvernig eigi að reka þau. Það eru miklar áhyggjur hjá þeim sveitarfélögum og samfélögum sem hafa tekið að sér að reka hjúkrunarheimili og hafa þessa nærþjónustu heima við og líka hjá sjálfseignarstofnunum sem reka hjúkrunarheimili. Ekki er nóg að hafa hjúkrunarheimili til staðar ef rekstrargrundvöllurinn er ekki tryggður, eins og við lögðum áherslu á í þessum stjórnarsáttmála. Ég vonast til þess að við getum haldið sem mestu af þessari þjónustu áfram í nærþjónustu og tryggt rekstrargrundvöllinn þar.