151. löggjafarþing — 5. fundur,  7. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[15:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst til að svara varðandi almannaheillafrumvarpið, það var til meðferðar í þinginu og var ekki afgreitt. Það komu fram ákveðin sjónarmið sem við erum að skoða og vinna að og þess vegna rataði það ekki inn á þingmálaskrá haustsins. Hana er hægt að endurskoða um jólin þannig að ef við verðum þá búin að lenda því sem þar kom upp geri ég ráð fyrir að leggja frumvarpið fram um jólin. En ég myndi vilja vera klár á því að við værum búin að hnýta það sem þyrfti að hnýta af því að ég hef nú þegar, ef ég man rétt, tvisvar sinnum mælt fyrir frumvarpinu.

Varðandi flugþróunarsjóð má segja að hann lifi allt of góðu lífi, þ.e. hann er bara of vel haldinn af því að því miður er ekki verið að sækja nógu mikið úr honum. Í raun væri það lúxusvandi ef við stæðum frammi fyrir hálftómum flugþróunarsjóði. En staðan er sú að hann er áfram til staðar. Í honum eru fjármunir. Reglurnar eru nokkuð ívilnandi og skýrar en því miður er lítið að gerast. Við höfum hins vegar nýtt tímann og endurskoðað aðeins stefnumótun sjóðsins, heimasíðu og hvar hún á að vera staðsett, tengja hana betur við Isavia þannig að þetta sé skýrt og á einum stað. Við erum því að reyna að gera það sem hægt er á meðan tíminn er eins og hann er. Ég hef alltaf tekið vel í það þegar upp koma hugmyndir um hvernig hægt sé að breyta reglum sjóðsins eða reglugerðum til að hægt sé að styðja enn frekar við þessar gáttir. Ef nýjar hugmyndir um það koma upp mun ég skoða þær með opnum hug.

Varðandi atvinnuþróunina hefur mér fundist margt hafa breyst til góðs. Kannski má segja að þar sé ákveðinn lúxusvandi, þ.e. hvort stuðningskerfið nái að hlaupa jafn hratt og þörf krefur af því það er svo margt í gangi (Forseti hringir.) þrátt fyrir erfiða stöðu. Mér hefur fundist þróunin heilt yfir landið vera frekar til bóta og að fjölbreytnin hafi verið að aukast. Hvort stuðningsumhverfi (Forseti hringir.) þurfi að taka einhverjum breytingum með það í huga er síðan eitthvað sem við þurfum ávallt að vera tilbúin að endurmeta.