151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

sveigjanleg símenntun.

[11:02]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú er sögulegur samdráttur í hagkerfinu og atvinnuleysi hefur aukist allverulega. Á Suðurnesjum er einn af hverjum fimm atvinnulaus. Víða um land er þetta vont og fer versnandi, 8,5% á landsvísu. Á slíkum stundum gegnir menntun ekki bara því hlutverki að þjálfa fólk fyrir störf og búa það undir framtíðina heldur einnig að skapa samheldni í samfélaginu og búa til tækifæri fyrir endurnýjun. Margt fólk sækir í menntun núna, bæði til að bæta sig og sína líðan og efla samfélagið. Í skýrslu framtíðarnefndar frá því fyrir ári síðan segir, með leyfi forseta:

„Gera má ráð fyrir enn frekari breytingum á starfsævi fólks, úr því að vera byggð á einni sérgrein og fáum vinnuveitendum í sveigjanlegri starfsferil þar sem fólk sækir sér aukna menntun eftir atvikum í gegnum lífsleiðina. Slíkt kallar á nýja nálgun í menntun, þar sem sveigjanleg símenntun verður raunhæfur möguleiki …“

Nú var þetta hugsað sem framtíðarplan en þessi framtíð er óvænt komin. Við stöndum frammi fyrir því að margir leita sér aukinnar menntunar. Nú hefur lengi verið kallað eftir raunfærnimati á háskólastigi. Það hefur ekki komist til framkvæmda og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar stendur það?

Mig langar einnig að spyrja hvort ekki sé tækifæri núna til að fara út í aukna sveigjanlegri símenntun, þróa námsleiðir og framboð í takt við breytta tíma en ekki síst í ljósi mikils atvinnuleysis, hvort ekki sé ástæða til að opna á að námsmenn geti sótt í atvinnuleysisbætur í mun meira mæli eða alla vega ekki bara þeir sem eru nýkomnir af vinnumarkaði heldur almennt þannig að við tryggjum fólki tekjur á meðan það reynir að bæta sig svo það geti bætt samfélagið okkar.