151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér virðist afskaplega lítið spennandi og allt fullt af tölum og breytingum á hinum og þessum lögum. Staðreyndin er þó sú að þetta frumvarp er afskaplega mikilvægt og við í efnahags- og viðskiptanefnd þurfum að fara vel yfir það. Þarna eru breytingar á gjaldskrám sem koma við mörg málasvið og marga málaflokka og við þurfum að skoða það allt í samhengi. Mig langar að nefna nokkur atriði hér við 1. umr. og svo rýnum við auðvitað betur í þetta allt saman í nefndinni og förum enn betur yfir þetta við 2. umr.

Okkur í Samfylkingunni finnst mjög mikilvægt að ef gerðar verða skattbreytingar eða breytingar á gjöldum verði þær til þess að ýta undir atvinnusköpun í þessu árferði, í þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Það er mikilvægt og nauðsynlegt fyrir okkur öll að koma í veg fyrir að smærri fyrirtæki falli unnvörpum á meðan stærri fyrirtæki stækki og hækki verð í veikara samkeppnisumhverfi. Þess vegna leggjum við til að til eins árs verði gerð sú breyting á tryggingagjaldinu að gefinn verði 2 millj. kr. afsláttur þannig að öll fyrirtæki fái þær 2 millj. kr. í afslátt. Það leggist þá þannig að minnstu fyrirtækin, með fjóra til fimm starfsmenn, borgi ekkert tryggingagjald á árinu 2021 og geti þá nýtt sér svigrúmið til að ráða starfsfólk eða halda starfsemi sinni áfram. Afslátturinn er góður fyrir meðalstór fyrirtæki en auðvitað fá öll fyrirtæki þennan afslátt, eins og hann er hugsaður hjá okkur, þó að hann skipti minna máli fyrir þau allra stærstu.

Ég held að þetta sé mjög góð hugmynd og í henni felst, eins og ég segi, snörp lækkun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem verður til þess að vinna gegn því að smærri fyrirtæki falli. Þau eru afskaplega mikilvæg í okkar hagkerfi. Við megum ekki stuðla að því að stærri fyrirtækin verði stærri og veiki um leið samkeppnina, það hefur áhrif á verðlag og kjör okkar allra. Ég vildi nefna þessa hugmynd. Ég vona að stjórnarliðar taki henni vel og við náum að gefa henni tíma í efnahags- og viðskiptanefnd til að fara yfir það hvað þetta þýðir fyrir vinnumarkaðinn og fyrirtækjaflóruna eins og hún blasir við okkur í dag. Það eru mörg lítil ferðaþjónustufyrirtæki, svo að ég nefni dæmi, og fyrirtæki í menningargeiranum sem myndu virkilega njóta góðs af þessu en eru í vondum málum núna.

Hitt sem ég vildi nefna er almenna tryggingakerfið og hvernig hækkanir eru í því. Fyrst vil ég nefna frítekjumark vegna launatekna. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir hér áðan er það 109.600 kr. á mánuði. Það sem þarf að skoða í þessu samhengi er að það var líka sú sama upphæð árið 2010, það hefur staðið óbreytt. Ef þessi upphæð, þetta frítekjumark vegna launatekna öryrkja, hefði fylgt raunverulegri launaþróun þá stæði það í um 200.000 kr. í dag. Ég held að það sjái hver maður að þessu þarf að breyta. Það þarf að stíga ákveðin skref í þá átt að hækka frítekjumarkið vegna launatekna. Það á ekki að vera innbyggt í almannatryggingakerfið okkar að letja fólk, sem þó getur stundum unnið, til að vinna. Þegar skerðingarnar eru svona grimmar vegna launatekna eins og þær eru í almannatryggingakerfinu getur það líka hreinlega leitt fólk í fátæktargildru sem margir eru í hér á landi. Við þurfum að losa um þá gildru. Síðan þarf líka að hækka grunninn með sama hætti, þ.e. miða við raunverulega launaþróun, í ellilífeyri og örorku- og endurhæfingarlífeyri, hækka grunninn og láta hann fylgja raunverulegri launaþróun.

Hæstv. ráðherra fór yfir það í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag að 69. gr. í lögum um almannatryggingar leyfði ekki slíkt. Þá segjum við í Samfylkingunni: Við skulum þá breyta þessari grein ef alltaf dregur í sundur með launamönnum og þeim sem þurfa að reiða sig á greiðslur frá Tryggingastofnun. Í dag er munurinn á lágmarkstekjutryggingu og þessum grunnlífeyri 80.000 kr. mánuði. Með breytingum sem ríkisstjórnin boðar í fjárlagafrumvarpinu verður þessi munur 86.000 kr. á mánuði. Ef við gerum ekki neitt, ef við stöðvum ekki þessa þróun, mun munurinn verða meiri ár frá ári og ójöfnuður aukast hér á landi. Við verðum að bregðast við því. Það er augljóst.

Það sama má segja um barnabæturnar. Ef upphæðir þeirra og viðmið fylgja ekki launaþróun þá dregst í sundur þar. Ég hef áður sagt það og ég hef ekki skipt um skoðun, eða við í Samfylkingunni, að við verðum að taka upp barnabótakerfið og horfa til annarra norrænna ríkja og horfa til þess að með því værum við að jafna stöðu barnafólks á við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Það er óásættanlegt í norrænu velferðarríki sem vill standa undir nafni að láta barnabætur byrja að skerðast fyrir neðan lágmarkstekjutryggingu, eins og er hér á landi. Önnur norræn ríki eru með ótekjutengdar barnabætur að mestu, allra hæstu tekjurnar í Danmörku hafa áhrif á barnabæturnar. Við í Samfylkingunni segjum: Við skulum þá taka aðeins raunhæfara skref en að gera þær algerlega ótekjutengdar. Förum upp í meðallaunin, látum þær ekki byrja að skerðast við 325.000 kr. eins og er í dag heldur miðum við meðallaunin sem eru einhvers staðar á milli 700– 800 þús. kr. á mánuði, eða voru það í fyrra. Stígum skref í þessa átt þannig að við jöfnum stöðu barnafólks í landinu á við hina sem ekki eru með börn á framfæri.

Síðan, forseti, verðum við að taka betur utan um fólk sem hefur misst vinnuna, taka betur utan um fjölskyldurnar sem bera þyngstu byrðarnar af þeirri kreppu sem við erum í. Hér áðan var rætt um að bótasvik, sem eru ekki mjög algeng, grafi undan samstöðu í landinu. Ef við ætlum að láta fólkið sem missir vinnuna í þessu ástandi bera þyngstu byrðarnar, ef við ætlum ekki að rétta því hjálparhönd, ef við ætlum ekki að dreifa byrðunum, þá er samstaðan horfin í samfélaginu. Það er gott og blessað að hafa lengt í tekjutengda bótatímabilinu en það verður að hækka grunnatvinnuleysisbæturnar og gera betur. Það má koma með eingreiðslu. Það má hækka framlög með börnum enn frekar, sem þarf að gæta sérstaklega að í þessu ástandi. Það er ríkisstjórnin ekki að gera en við í Samfylkingunni viljum stíga þarna skref.

Forseti. Ég vil leggja áherslu á að þetta er afskaplega brýnt verkefni. Að lokum vil ég segja og undirstrika að ef við viljum í raun vinna á ójöfnuði í samfélaginu þá verðum við að horfa á almannatryggingar, á atvinnuleysistryggingar og barnabætur og húsnæðisbætur og láta þær upphæðir fylgja raunverulegri launaþróun. Ég nefni húsnæðisbætur. Hæstv. ráðherra fór yfir það hér áðan í ræðu sinni að viðmiðin hvað varðar vaxtabætur verða áfram þau sömu og þau hafa ekki breyst í mörg ár. Það er ein leið til þess að rústa kerfi að breyta ekki viðmiðum, ákveðnum viðmiðunartölum, á meðan aðrar breytur, sem hafa áhrif á það sem fólk þarf að borga í vexti, breytast hins vegar, t.d. fasteignaverð, laun, vextir af lánum og skuldahlutföll og hvað það er sem þarna er undir. Það breytist, það tekur breytingum en viðmiðið sem stjórnvöld setja fyrir vaxtabætur er alltaf það sama og þar með skreppur kerfið saman og gagnast ekki þeim sem helst þyrftu á því að halda.

Herra forseti. Þetta var það sem ég vildi segja í 1. umr. Ég vil ítreka það að þetta frumvarp sem er óaðlaðandi við fyrstu sýn er það ekki þegar maður fer að skoða áhrifin af því. Við þurfum að gefa yfirferð yfir það góðan tíma í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.