151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[12:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er bara ekki sammála því að við séum í miklu betri stöðu núna heldur en við vorum árið 2009. Ef við horfum á halla ríkissjóðs í ár og á næsta ári verður hann tæpir 600 milljarðar. Þetta snýst um pólitík, þetta snýst um efnahagsstefnu. Og það er bara meira en sjálfsagt að rifja upp hvaða leið var þá farin, að draga jafn mikið og gert var úr opinberri fjárfestingu. Á meðan erum við að leggja áherslu á að auka fjárfestingu. Þá koma þeir sem vilja gagnrýna þá stefnu og segja: Það þarf að gera meira.

Við erum að verja þessi kerfi, þá var gengið á kerfin. Það er bara staðreynd enda kannast hv. þingmaður við það. Persónuafslátturinn fékk ekki að fylgja verðlagi. Það var farið í meiri háttar skerðingar víða í almannatryggingum sem síðar var undið ofan af og þættir eins og barnabætur voru skrúfaðir niður. Jafnvel þótt það hafi átt að skila því að einhverju leyti til baka árið 2013 eru þetta bara staðreyndir. Þetta eru staðreyndir.

Hv. þingmaður vill vekja sérstaka athygli á stöðu þeirra sem minnst hafa milli handanna á Íslandi. Þá bendi ég á að á undanförnum árum hefur okkur tekist að halda þannig á málum að kaupmáttur þeirra vex ár frá ári. Þá koma þingmenn eins og hv. þingmaður gerir hér og segja: Ja, vandamálið er að þeir hafa ekki náð að fylgja nákvæmlega launaþróun þeirra lægst settu.

Það er bara meiri háttar krefjandi verkefni að láta það gerast í ljósi þess að þeir launamenn sem eru neðst í tekjustiganum hafa fengið sérstakan forgang á undanförnum árum. Þess vegna er ódýrt að koma hingað og segja, sérstaklega þegar halli ríkissjóðs er 260 milljarðar: Við eigum bara að láta allar bætur almannatrygginga fylgja í humátt á eftir.

Ég tek eftir því hér í dag, í umræðu um þessi stóru og mikilvægu mál, að það er afskaplega lítið rætt um það hvernig við gröfum okkur aftur upp úr þeirri holu. Það gerist ekki nema með því að efla atvinnulíf, hefja sókn að nýju sem mun skila ríkissjóði tekjum til að standa undir þessu öllu. En það mun ekki gerast með því að menn komi með tillögur um að auka á útgjöldin án þess að eitthvað skili sér tekjumegin.