151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[13:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ríkisstjórnin hefur gripið til ýmissa aðgerða vegna þeirra efnahagsþrenginga, svo að vægt sé til orða tekið, sem samfélagið er að takast á við núna. Sumar þeirra aðgerða hafa snúið að sköttum, það er alveg rétt, til að mynda framlenging á verkefninu sem kallað er Allir vinna. Það er mjög jákvætt verkefni en sýnir einmitt, og hefur sýnt í gegnum tíðina, kosti þess að draga úr álögum til að auka atvinnu- og verðmætasköpun. Það að ríkið skuli hafa gripið til þessara aðgerða, fyrst eftir bankahrunið og svo aftur núna, sannaði í raun kenningar, sem ég held að við hæstv. ráðherra séum sammála um, um hvetjandi áhrif þess að menn fái að halda eftir meiru af verðmætasköpuninni og að það geti jafnvel á endanum skilað sér betur til ríkisins.

Þess heldur skyldi maður ætla að þetta skilaði sér núna í breytingum á skattkerfinu. Annars vegar er um að ræða viðbrögð við ástandinu, og má segja að neyðin hafi kennt ríkisstjórninni að lækka skatta, en maður hefði viljað að það skilaði sér í auknum mæli inn í framtíðarstefnu í skattamálum.

Hvað varðar tekjuskattinn, sem hæstv. ráðherra nefndi, er það jákvætt skref að nokkru leyti en mér fannst ríkisstjórnin fara reyndar mikla fjallabaksleið í þeim efnum þegar ráðist var í að koma aftur á þriggja þrepa skattkerfi rétt eftir að búið var að einfalda kerfið og fækka þrepunum niður í tvö til að ná svo ákveðinni lækkun á tilteknu tekjubili. En aðalskilaboðin eru þessi: Aðgerðir sem gripið er til í neyð — það hefur sýnt sig að nokkru leyti að slíkar aðgerðir eiga heima til framtíðar.