151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

skýrsla um sóttvarnalög og heimildir stjórnvalda.

[15:43]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Öll erum við sammála um að stjórnvöldum ber skylda til að grípa til aðgerða til að vernda líf og limi landsmanna þegar á þarf að halda og það kemur auðvitað fram í þessari skýrslu. En hins vegar bendir skýrsluhöfundur sérstaklega á að þessar skyldur stjórnvalda þurfi auðvitað líka að skoða í tíma og rúmi. Og eftir því sem tíminn líður, og nú erum við á áttunda mánuði faraldursins og vísindin segja okkur ýmsar sögur um sjúkdóminn, held ég að ekki verði annað lesið úr skýrslunni en að huga þurfi vel að heimildum sóttvarnayfirvalda til aðgerða.

Mér dettur eitt dæmi í hug sem hefur væntanlega einnig verið þingmönnum hugleikið um helgina, þ.e. tilmæli sem sóttvarnayfirvöld sendu Íþróttasambandi Íslands þvert á setta reglugerð heilbrigðisráðherra, tilmæli sem góð og gegn félög eins og Íþróttasamband Íslands og fleiri þora að sjálfsögðu ekki annað en að fara eftir. Er þetta ekki dæmi um að það þurfi (Forseti hringir.) einmitt að endurskoða heimildir sóttvarnalaga? Og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort hún þekki það hver sé lagagrundvöllur slíkra tilmæla sóttvarnayfirvalda til einstakra fyrirtækja, félagasamtaka (Forseti hringir.) eða einstaklinga? Hver er lagagrundvöllurinn?