151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

barnalög.

11. mál
[17:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að þetta mál sé komið aftur fram og ég myndi styðja það að óbreyttu. Það er þó ekki fullkomið. Eins og hv. þingmenn hafa sagt hér í ræðum á eftir að útkljá og finna út úr ákveðnum atriðum og ég verð að taka undir með hv. 7. þm. Reykv. n. Ég tel að málið sé kannski ekki komið jafn langt í málsmeðferð okkar og hefði mátt ætla af fyrri ræðum hér.

Ég verð að byrja á að tala um málsmeðferðina sem er því miður alls ekkert einsdæmi. Hér kemur frumvarpið aftur fram og það er efnislega óbreytt, þ.e. gildistíminn er annar og greinargerðin er eitthvað uppfærð en eftir því sem ég fæ best séð er efni greinanna nákvæmlega það sama upp á bókstaf, fyrir utan gildistímann. Það bárust ansi margar umsagnir síðast þegar málið var lagt fram. Þá verður að spyrja hvers vegna slíkt mál sé ekki lagt fram með tilliti til þeirra breytinga, hreinlega til að spara nefndinni og þinginu tíma við að afgreiða málið. Og sömuleiðis til að vera ekki að spyrja umsagnaraðila sömu spurninganna aftur og aftur, krefjast þess að þeir sendi inn umsagnir aftur og aftur og tönnlist á því sama og þeir hafa sagt áður og er, að því er virðist, óumdeilt eða hefur alla vega ekki verið svarað með mótbárum.

Eitt dæmi er einföld ábending um orðalag í 8. og 13. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að barn skuli hafa rétt til að tjá sig í samræmi við aldur og þroska. Umsagnaraðilinn sem benti á þetta síðast var Barnaheill. Samtökin sendu inn umsögn á síðasta þingi og bentu á ósamræmið milli orðalags í 8. og 13. gr. frumvarpsins annars vegar og 12. gr. barnasáttmálans hins vegar. Þar á barn að hafa réttinn til að tjá sig þegar það getur myndað sér skoðanir en hins vegar sé tekið tillit til þeirra skoðana í samræmi við aldur barnsins og þroska. Þetta er ekki alveg það sama og stendur í 8. og 13. gr. frumvarpsins. Reyndar benda samtökin á sama ósamræmi annars staðar í lögum. Það er ekkert vandamál að laga þetta. Það hefði ekki verið neitt mál að laga það og leggja frumvarpið þannig fram að ekki þurfi að koma aftur með þessa sömu athugasemd.

Þetta er ekki einsdæmi og ekki efnisleg gagnrýni í sjálfu sér — jú, þetta er reyndar efnisleg gagnrýni á frumvarpið en það er í sjálfu sér ekkert sérstakt við þetta mál. Mér finnst bara leiðinleg sú tilhneiging okkar á Alþingi að spyrja sífellt sömu umsagnaraðila spurninga, fá sömu svörin og láta eins og við heyrum ekkert hvað þeir segja. Mér finnst það ákveðinn blettur á vinnubrögðum hérna og ég óttast að það dragi úr tiltrú umsagnaraðila á því að við séum að hlusta á það sem þeir segja og bregðast við á þann hátt sem fólk almennt ætlast til að brugðist sé við ábendingum. Ég held að ef um fyrirtæki væri að ræða — og ég veit að Alþingi er það ekki, kannski sem betur fer, en fólk býst almennt við öðruvísi vinnubrögðum, hvort sem það er hjá fyrirtækjum, opinberum stofnunum eða hvaðeina. En á Alþingi klippum við hlutina svolítið — ekkert svolítið, við klippum þá alveg burt þegar nýtt þing kemur saman. Við hendum öllum málum út og leggjum þau fram upp á nýtt. Það væri í sjálfu sér ekki svo slæmt ef við værum ekki alltaf að bakka svona í vinnunni. Ef vinnan væri bara áfram u.þ.b. á þeim stað þar sem hún stöðvaðist, gott og vel, þá væri það ekki svona slæmt. En mér finnst leiðinlegt þegar kemur að málum sem eru mikilvæg og skipta fólk ofboðslega miklu máli að Alþingi, eða reyndar ráðuneytið, verð ég að segja, virðist ekki hlusta eða lítur alla vega þannig á að það séu eðlileg vinnubrögð að leggja málið fram óbreytt og láta nefndina redda því einhvern veginn eftir að hafa spurt umsagnaraðilana aftur. Og umsagnaraðilarnir segja aftur það sama. Kannski nær nefndin að klára málið. Þetta er ekki töff, virðulegi forseti. Mér finnst þetta ekki flott. Mér finnst þetta mjög leiðinlegt.

Ég verð þó líka að nefna eitt í sambandi við hina miklu sátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir að ríki milli foreldra þegar kemur til skiptrar búsetu. Ég skil punktinn mjög vel og hann er mikilvægur. Stofnanir sem verja hagsmuni barna benda á að þetta sé gríðarlega mikilvægt og að núverandi fyrirkomulag geti verið miklu betra fyrir barn þar sem foreldrarnir eiga í ósætti. Ég skil það. Ég hef samt sem áður áhyggjur af því að á meðan þessi ofboðslega sátt þarf að vera til staðar og ekkert má í raun og veru fara úrskeiðis í samskiptum foreldranna myndist kúgunarsamband á milli þess foreldris sem myndi hafa búsetu barnsins og hins ef fyrirkomulaginu er rift. Það er nefnilega auðvelt fyrir fólk að segjast vera rosalega sátt ef það á yfir höfði sér að missa eitthvað sem er því mjög mikilvægt ef sýnt er fram á ósætti. Þannig eru mörg kúgunarsambönd. Ég hef áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag geti búið til slík sambönd. Að því sögðu er ég ekkert viss um hvernig eigi að leysa þetta. En mér finnst mikilvægt að við höfum í huga að fólk getur sagst vera sátt. Það er stundum bara vegna þess að það óttast afleiðingarnar af því að tjá ósætti. Það er ekki endilega það sem við viljum og er ekki endilega gott fyrir börnin heldur, ef út í það er farið.

Þegar við ræðum mál eins og skipta búsetu, sem áður hefur verið kallað eftir í formi tvöfalds lögheimilis, — ég sé til hvort ég komi að smá umræðu um það í þessari stuttu ræðu — finnst mér almennt gríðarlega mikil tilætlunarsemi gagnvart borgurunum í íslensku samfélagi. Mér finnst yfirvöld vera ofboðslega tilætlunarsöm gagnvart einstaklingum varðandi hvað þeir megi heita, hvar þeir megi eiga lögheimili, hver eigi að fá að vita hvar þetta lögheimili sé, hvað þetta lögheimili sé, hvernig það sé skilgreint og hvernig fjölskyldumynstur skuli vera. Og auðvitað er ástæðan fyrir því að við þurfum að lögfesta þetta núna — ég vil meina að við þurfum að gera það — að fjölskyldumynstur eru byrjuð að breytast á Íslandi, beint í kjölfar aukins jafnréttis vitaskuld. Þá þurfum við enn og aftur, og ekki í fyrsta sinn og sennilega ekki í það síðasta, að horfast í augu við að fyrirkomulagið sem við höfðum áður gerði ráð fyrir ákveðnu boxi, ákveðnum venjum og hvernig við erum vön því að flest fólk sé. Við setjum lög og reglur sem gera ráð fyrir að allt fólk sé eins og þessi meiri hluti. Svo fer það að breytast og þá lendum við í vandræðum sem krefja okkur um löggjöf sem þessa.

Þetta eru ekki rök gegn löggjöfinni, þvert á móti. Mér finnst bara að Alþingi og yfirvöld, og kannski bara Íslendingar upp til hópa, ættu að festa sig minna í norminu, minna í því hvað þykir venjulegt og í því að búa til einhver box, ramma og ferla í kringum það sem sennilega flestir samsama sig við. Það býr til svo leiðinlega stöðu fyrir hópinn sem passar ekki í boxið. Það er eiginlega alveg sama um hvaða svið samfélagsins við tölum, fullt af fólki passar ekki í boxið. Nefnið bara boxið og það er fullt af fólki sem passar ekki í það, hvort sem það er fjölskyldumynstrið, kynhneigð, kyn, skoðanir eða hvaðeina. Manneskjur eru fjölbreyttar, manneskjur eru kristallar. Þær líta ólíkt út úr mismunandi áttum. Sem systkini erum við ólík því sem við erum sem foreldri, sem foreldri erum við ólík því sem við erum sem samstarfsfólk og þar fram eftir götunum. Kerfin okkar eru almennt þannig byggð að við gerum ráð fyrir því að það sé eitthvert venjulegt íslenskt fjölskylduform, svona venjulegir Íslendingar sem lifa einhverju venjulegu lífi. Og við setjum löggjöf sem rammar þetta inn.

Við ætlum í náinni framtíð að ræða hér líka mannanöfn og ég ætla að fara aðeins betur út í þann þátt málsins. Mér finnst agalegt að sjá birtast svo skýrt viðhorfið sem mér finnst gegnumgangandi í íslenskri menningu, og hefur sennilega ávallt verið, eða alla vega mjög lengi, þegar við þurfum að taka fyrir svona frumvörp. Að því sögðu er augljóslega ekki um að ræða einföld atriði sem þarf að útkljá. Það að tveir aðilar ákveði að ala upp barn saman á jafnréttisgrundvelli er ekki endilega einfalt viðfangsefni. Ég átta mig á því. En í gegnum gildandi löggjöf skín hvernig íslensk yfirvöld, og kannski Íslendingar almennt, hafa svolítið gert ráð fyrir því að hið venjulega fjölskyldumynstur sé hið eðlilega ástand, hin venjulega eining. Ég vil bara vekja fólk til umhugsunar um þetta. Það er ekki gott að við venjum okkur á að festa fólk svona mikið inni í boxi. Það er ósiður sem við eigum að venja okkur af og við ættum að hafa gert fyrir hundrað árum síðan. En núna neyðumst við auðvitað til þess því að það kemur betur og betur í ljós hversu fjölbreytt fólk raunverulega er og hversu mikilvægt það er að við viðurkennum og tökum tillit til þeirrar staðreyndar.

Ég verð einnig að nefna viðvörunarorð sem komu fram í umsögn um málið á síðasta þingi, og eiga við fleiri mál, þ.e. hvernig margar stofnanir okkar sem þjóna ofboðslega mikilvægu hlutverki við að tryggja réttindi fólks, til að mynda í svona málum, ráða ekki við verkefnið á tilsettum tíma. Á Alþingi setjum við rammana og löggjöfina og við trúum því að þegar við höfum sett þessi lög séum við búin að leysa einhver vandamál. Vonandi er það oftast tilfellið. En svo birtist raunveruleikinn á gólfinu, hjá skjólstæðingum okkar sem síðan vinna eftir þessum ferlum og nýja fyrirkomulagi. Þá kemur í ljós að biðtíminn er langur. Það fylgir því mikil bið, mikil skriffinnska, mikið vesen að raungera markmiðin sem við hér berjumst svo ötullega fyrir að lögleiða. Ábyrgð okkar er mjög rík og mér finnst ekki alveg nógu mikið talað um það. Mér finnst svolítið eins og við höfum bara vanist því að eðlilegt sé að ríkisstofnanir taki ofboðslega langan tíma til að vinna úr mjög mikilvægum málum.

Í umsögnum er varað við því að þegar verið er að sýsla með skipta búsetu, sér í lagi þegar er verið að rifta henni, skipti svo miklu máli að niðurstöður komi fljótt, að ekki sé t.d. óljóst hver umgengnisréttur sé eða hvernig fari með barnabætur eða hvað eina sem varðar búsetu barnsins. Það skiptir raunverulegu máli. Þetta er ekki bara spurning um að borgarinn þurfi ekki að standa í einhverju veseni eða að það sé svo leiðinlegt að sitja einhvers staðar og bíða. Það er ekki málið, virðulegi forseti. Málið er að þessi bið og það hvernig við venjumst því að það taki opinberar stofnanir langan tíma að gera hlutina hefur raunveruleg áhrif á réttindi fólks og getu þess til að haga lífi sínu í samræmi við sinn vilja. Ég vil meina að það sé slæmt.

Það er að mínu mati á ábyrgð yfirvalda að passa að opinberar stofnanir, eins og t.d. sýslumannsembætti, hafi næga burði til að sinna verkefnum sínum hratt. Það hljómar eins og verið sé að leggja til einhvern lúxus. Ég vil bara meina að svo sé ekki. Ég held að í íslensku samfélagi felist alveg ótrúlega mikil sóun — og sennilega í fleiri samfélögum sem eru kannski gjarnari á skriffinnsku heldur en við erum hér — í því að láta fólk bíða, að láta fólk vera í óvissu og hindra það í að taka ákvarðanir og raungera þær jafn hratt og það myndi vilja. Mér finnst þetta gríðarlega mikilvægt. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort við ættum ekki að hafa sérstaka umræðu um það hér. Hún yrði þá væntanlega sett fram sem umræða um skilvirkni opinberra stofnana og þess háttar. Sífellt er verið að breyta lögum til að auka skilvirkni og það er gott og blessað. En stundum er bara verið að stytta sér leið til að þurfa ekki að horfast í augu við að stundum, virðulegi forseti, ekki alltaf, en stundum, þarf bara meiri peninga í tilteknar stofnanir til að þær geti ráðið starfsfólkið sem þarf og staðið undir þjónustu á þann hátt að hlutirnir gerist hratt og vel. Ég veit mætavel að auðvitað er ekki við stofnanirnar sjálfar að sakast. Þær vinna auðvitað bara með það sem þeim er veitt héðan.

Enn fremur átta ég mig á því að væntanlega myndu allar eða langflestar stofnanir vilja hafa meira á milli handanna til að vinna vinnuna sína betur. Ég er ekki að segja að það sé metnaðarleysi hjá stofnunum. Ég er að segja: Mér finnst að á Alþingi og í stjórnmálunum einhvern veginn viðgangist ákveðið viðhorf, þ.e. að allar kröfur stofnana um meira fjármagn til að sinna hlutverki sínu betur sé einhvers konar tuð eða frekja. Ég tel svo ekki vera. Ég held að við eigum að taka alvarlegar en við höfum gert kröfur stofnana um að fá meira fjármagn til að sinna grunnþjónustuhlutverki sínu. Þetta er ekki alveg besti tíminn til að kalla eftir auknu fé í það, (Forseti hringir.) alla vega ekki pólitískt. En þegar kemur að svona málum verður þörfin svo rík. Þá finnst mér að við þurfum að hafa þetta í huga. Nú er tíma mínum lokið, virðulegi forseti. Ég þakka biðlundina en ég kem að vörmu spori með aðra ræðu.