151. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2020.

kyrrsetning, lögbann o.fl.

16. mál
[17:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en vil ítreka að það sem mér fannst svo sláandi við málið Glitnir HoldCo gegn Stundinni, var málsmeðferð sýslumanns, sem viðurkenndi á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hann kannaðist ekki einu sinni við þau grundvallarhugtök sem við notum til að meta hvort skerðing á tjáningarfrelsi sé réttlætanleg. Í máli sem þessu, sem er í aðdraganda kosninga og er mikilvæg umfjöllun sem varðar almenning: hvers vegna var lögbannsbeiðninni ekki einfaldlega hafnað, vegna þess að hún var ekki nauðsynleg í lýðræðissamfélagi, vegna þess að hún uppfyllti ekki meðalhóf, vegna þess að þetta var óréttmætt inngrip í tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi? Þekkingunni um þessi grundvallarréttindi í lýðræðislegu þjóðfélagi var einfaldlega ekki fyrir að fara hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hann kannaðist varla við tjáningarfrelsið, og það átti reyndar við um fleiri á þessum fundi. Sumir stormuðu meira út af því að þeir voru svo fúlir yfir tjáningarfrelsinu.

En ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það sé ekki rétt að matsvaldið — hvort það sé nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að setja á lögbann, sem kann að taka tvo daga, fimm daga, tvær vikur. Það er skerðing, það er takmörkun á tjáningarfrelsi. Hún getur verið óréttmæt þótt málið fari kannski einhvern tímann fyrir dómstóla. En þá er skaðinn skeður. Stjórnvaldið sem tekur þá ákvörðun að setja á lögbann hlýtur að þurfa að vera í stakk búið til þess að meta hvort það sé réttmætt að gera það, sér í lagi í aðdraganda kosninga, hvort sem það er til bráðabirgða eða ekki. Þurfum við ekki að hafa skýrari heimildir til að meta hvort réttmætt sé að leggja á lögbann á fyrsta stjórnsýslustigi? Og þarf ekki að fræða sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu aðeins?