151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Á þessu þingi flyt ég, ásamt þingmönnum úr öllum flokkum, tillögu um aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum. Það kann að hljóma sérkennilega að flytja slíkt mál. Margir hafa velt fyrir sér: Er eitthvað slíkt til í samfélaginu? En við þurfum ekki nema rétt að velta fyrir okkur hvernig umræðan, kommentakerfin og fleira eru í afstöðu sinni til ýmissa þátta sem snúa að eldra fólki. Þetta fólk þarf að búa við að það er „fyrir“ á spítölum, fyllir dýr pláss, skilur ekki nútímann, kann ekki að keyra, kann ekki á tölvur o.s.frv. Auðvitað er þetta beinlínis skaðleg afstaða og skaðleg ummæli þegar þau heyrast eða eru sögð. Þau meiða og hindra í rauninni samfélag okkar í að notfæra sér og taka mark á öllum þeim félagsauði sem býr í eldra fólki, og búa til óþarfa gjá á milli kynslóða í samfélaginu.

Því hef ég lagt fram þessa tillögu þar sem félags- og barnamálaráðherra er falið að skipa starfshóp til að komast til botns í þessu, hvort við getum með einhverju móti breytt þessu og þá til hins betra. Sem samfélag eigum við nefnilega að fagna þeim breytileika sem birtist í mismunandi aldursbilum. Við eigum ekki að nálgast það sem vandamál heldur fagna verkefnunum sem hverjum aldri fylgja. Við eigum að nálgast alla íbúa, væntingar þeirra, vonir og þrár án fordóma.