151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vildi hafa örfá orð um þetta frumvarp. Ég vildi geta þess, bara meðan ég man, að ég fagna því auðvitað að fá málið til allsherjar- og menntamálanefndar þar sem ég á sæti og get fjallað um það áfram þar. En ég verð þó að segja að mér finnst kannski alveg óþarfi að tengja þetta við frumvörpin sem hæstv. forsætisráðherra flytur hér á eftir. Í mínum huga greina þau mál sem varða þingsköp Alþingis sig töluvert mikið frá þeim málum sem þar er um að ræða. Ég hefði alveg eins getað séð fyrir mér að þetta færi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fengi sjálfstæða umfjöllun þar þó að það komi væntanlega ekki að neinni sök þegar til kastanna kemur.

Aldrei þessu vant get ég tekið undir töluvert af því sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði hér áðan varðandi þá tæknilegu vankanta sem geta verið fólgnir í því að ætla að framfylgja 1. og 2. gr. eftir því sem greinarnar eru mótaðar. Það er auðvitað sett fram, eins og hæstv. forseti gat um, ákveðin vísiregla um að gæta skuli að kynjahlutföllum í forsætisnefnd og nefndum þingsins, en þó auðvitað með þeim fyrirvara að sagt er að það skuli gera eins jafnt og niðurstöður alþingiskosninga og kynjahlutföll innan þingflokka bjóða. Út af fyrir sig má segja að greinarnar eins og þær líta út hér feli það fyrst og fremst í sér að verið er að setja inn í þingsköp viðmið sem hafa alla vega upp á síðkastið verið viðhöfð af hálfu þingflokksformanna þegar unnið er með skipun í nefndir. Það er reynt að gæta þess eins og kostur er miðað við það hvernig alþingiskosningar hafa farið, hverjir hafa verið kosnir á Alþingi og fyrir hvaða flokka. Auðvitað er það rétt, sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti á, að ekki er hægt að gera þá kröfu að einn þingflokkur segi öðrum fyrir verkum með það hvernig hann skipar í einhver tiltekin störf hér innan þingsins, þannig að það sé sagt. Það á við jafnt hvort sem þingflokkur er stór eða lítill. Þó að svigrúm stærri flokka sé oft meira en í smærri flokkum er ekkert endilega víst að það sé alltaf svo. Þingflokkarnir hljóta alltaf að vera sjálfstæðir í því hverja þeir kjósa til setu í einstökum nefndum.

Það atriði sem hér er getið um, þessi vísiregla í 1. og 2. gr., hefur auðvitað komið til umfjöllunar á vettvangi þingskapanefndar og var mótuð í samtölum þar. 3. gr. er örlítið annars eðlis, bæði varðandi andlag eða viðfangsefni hennar og útfærsluna. Hún lýtur að kjöri, sem fer fram á þingi, í nefndir sem starfa utan þingsins. Það er vissulega rétt, sem fram kemur í máli hæstv. forseta, að þar eru möguleikar þingflokka til að raða í sæti ekki takmarkaðir með sama hætti og þegar velja verður úr hópi þingmanna eða fulltrúa þingflokka; svigrúmið er meira og þess vegna auðveldara að koma til móts við sjónarmið af þessu tagi.

Ég verð þó samt sem áður að geta þess að mér finnst erfitt að ætla að yfirfæra reglur um kynjakvóta í stjórnsýslunefndir yfir á þingkjörnar nefndir sem eiga eftir atvikum að endurspegla pólitísk hlutföll, sem geta verið alls konar og fara eftir alls konar öðrum þáttum en kynferði þeirra sem tilnefndir eru, þannig að ég hef svona almennan fyrirvara hvað það varðar.

Útfærsla 3. gr. var nokkuð nýstárleg þegar ég skoðaði hana hér eftir að frumvarpið var lagt fram. Í raun og veru má segja að hér sé í fyrsta lagi sett fram almenn regla sem tekur mið af almennu reglu jafnréttislaganna um að hlutfall skuli ekki vera minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Síðan er bætt við ákvæði varðandi stöðu fólks með hlutlausa kynskráningu. Ég veit ekki alveg hvernig á að samþýða það hinni reglunni, hvernig það verður í praxís, ég átta mig ekki á því. En svo kemur í lokin þriðja reglan sem segir: Hlutfall kvenna skal þó aldrei vera minna en 40%. Ég verð að segja að þetta stingur svolítið í stúf og ég sé ekki í greinargerðinni neina sérstaka skýringu á þessu. Ég held að þessi útfærsla hljóti að vera eitthvað sem kemur til skoðunar þegar málið gengur til nefndar.

Án þess að ég ætli að eyða mörgum orðum í þetta frekar vildi ég aðeins árétta þessi sjónarmið í þessu. Persónulega er ég þeirrar skoðunar, og hef sjálfsagt einhvern tíma látið hana í ljós, að æskilegast sé að kosið sé í nefndir þingsins eftir hlutfallsstöðu í þinginu, að þingflokkar, eða eftir atvikum stjórnarmeirihluti og stjórnarandstaða, fái fulltrúa í þingnefndum í samræmi við hlutföll á þinginu sem endurspeglar niðurstöðu lýðræðislegra kosninga. Mér finnst 14. gr. núverandi, frá 2011, í raun vera til trafala og flækja hlutina. Ef ég ætti að ráða þessu einn, sem ég geri auðvitað ekki, myndi ég hverfa til þess nefndarkjörs sem var fyrir hendi fyrir 2011, því að ásamt með sumum öðrum breytingum sem voru ákveðnar 2011, og ég tók þátt í því, ég tek það fram, hef ég efasemdir um að þær hafi leitt til betri starfa í þinginu.