151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

Þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég var svo óheppinn að missa af því að veita andsvar við ræðu hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar en var svo heppinn að hv. þm. Birgir Ármannsson kom og var sammála þeim fyrrnefnda í einu og öllu þannig að ég get slegið tvær flugur í einu höggi og átt andsvar við hv. þingmann en í raun átt samtal við þá báða. Hann fær það hlutverk að vera talsmaður þeirra tveggja.

Ég hef hlustað af athygli á þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og verð að játa að ég sé ekki alveg það vandamál sem mér finnst hafa verið bent á hér fyrr í umræðunni, sem ég skil ekki alveg. Eins og hv. þingmaður hefur komið inn á, forseti, er hér talað um að „leitast við“ og eitthvað slíkt. Fyrr í umræðunni var einmitt talað um að ekki væri hægt að gera skilyrðislausa kröfu eða hvernig það var nú. En er þetta eitthvað öðruvísi en er einfaldlega gert nánast í hverri viku þegar nefndir eru skipaðar þar sem leitast er við að halda kynjahlutföllum eftir lögunum, þar sem framkvæmdarvaldið, t.d. ráðuneyti Sjálfstæðisflokksins, flokks hv. þingmanns, þarf að uppfylla þetta? Aðilar úti í bæ tilnefna í nefndirnar og þurfa einhvern veginn að finna saman út úr því að kynjahlutföll séu sem best, þ.e. í anda laga, þrátt fyrir að þetta mengi, sem er nefndin, verði ekki stækkað. Er þetta ekki praktíserað hér úti um allt nánast á hverjum degi og af hverju er vandamál að gera það hér? Eina málið er að hér er mengið 63 þingmenn en er ekki í þessu frumvarpi einmitt gert ráð fyrir því að það sé ekki fortakslaust heldur sé „leitast við“? Og hvað er þá vandamálið?