151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[18:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gleymdi að nefna það í fyrra andsvari, en það tengist auðvitað því seinna, að frumvarpið grundvallast á vinnu starfshóps sem fulltrúar leigubifreiðastjóra voru í og að sjálfsögðu var farið yfir umsögn Frama. En ástæðan fyrir því að menn leggja af stað í þessar breytingar er að núgildandi lög brjóta að öllum líkindum þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar, samanber það í Noregi. Talað er um að aðstæður á Íslandi séu sérstakar en auðvitað eru svæði annars staðar á Norðurlöndum þar sem þær eru það líka.

Ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað er grafalvarleg staða uppi vegna Covid í augnablikinu en við erum líka að setja hér löggjöf eitthvað fram í tímann. Við munum án efa komast út úr Covid-tímanum og þá verður kannski svolítið annað uppi á teningnum. Þá getur verið ágætt að hafa gengið frá nútímalegri löggjöf sem horfir til allra þessara þátta, líka varðandi þá sem starfa (Forseti hringir.) í greininni, til að tryggja að allir sitji við sama borð.