151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

leigubifreiðaakstur.

10. mál
[19:15]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Svona rétt í lokin á svo sem ekki mikilli umræðu langaði mig að koma hingað upp og draga það saman að hér er auðvitað ekki verið að innleiða nýtt regluverk, eins og haldið var fram, heldur er um að ræða skuldbindingar sem þegar eru í gildi samkvæmt EES-samningnum. Ég veit reyndar að hv. þingmaður, og hv. þingmenn sem eru í andstöðu við þetta, gæti haft gaman af að skora þær á hólm og allt í lagi með það. Ég minni hins vegar á að öll Norðurlöndin hafa farið þessa leið. Og af því að Finnland var nefnt hér er rétt að þeir gengu mjög langt og hentu eiginlega öllu frá. Það erum við akkúrat ekki að gera og ég hef trú á því að komi Finnar til baka muni þeir nálgast svipaðar breytingar og við erum að gera hér.

Og hvað erum við að gera? Jú, öryggisatriði eru til að mynda betur tryggð með þessu frumvarpi, bæði gagnvart farþegum og bifreiðastjórum, ákvæði um skilyrði fyrir útgefnum leyfum eru gerð skýrari og eftirlit með starfseminni aukið, m.a. að kröfu núverandi leigubifreiðastjóra. Þess vegna tel ég að staða þeirra verði betri eftir en áður. Ég þekki það af póstum sem ég hef fengið að í dag er stunduð starfsemi sem ekki er með leyfi í samkeppni við þá sem hafa leyfin á sínum höndum. Ég treysti því auðvitað að nefndin fari vel yfir þetta.

Ástæðan fyrir því að málið er komið fram er augljóslega sú að þau mál sem eru flutt hér fyrstu dagana eru mál sem voru til búin í vor, tóku litlum breytingum og eru tilbúin til framlagningar. Það er bara gott að þingið og nefndir þingsins hafi nægan tíma til að fara yfir þau mál. Í því felst ekki forgangsröðun ríkisstjórnar eða mín í þeim málum sem ég legg áherslu á í vetur heldur eru þetta fyrst og fremst þau mál sem lágu fyrir klár í vor og eru auðvitað enn klár á fyrstu dögum þingsins þegar það hefst að nýju eftir sumarleyfi.