151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

44. mál
[14:07]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt. Við sitjum á svo mörgum tækifærum. Ég fór til Suður-Kóreu fyrir nokkrum árum og fékk þar m.a. að skoða stærstu bílaverksmiðju heims og stærstu skipasmíðastöð heims sem eru bara nokkrum kílómetrum hvor frá annarri í hafnarborginni Ulsan. Ég hugsaði: Suður-Kórea býr ekki að neinum miklum auðlindum, það er ekki mikið af stáli t.d. eða járni í jarðveginum eða þannig. Megnið af virðiskeðju þeirra er innflutt að einhverju leyti. Á Íslandi erum við með svakalega álframleiðslu, alveg svakalega. Nánast ekkert af því áli er notað á Íslandi. Þetta er allt flutt beinlínis úr landi. Við gætum verið að framleiða bíla eða ég veit ekki hvort við höfum áhuga á því að byggja upp bílaiðnað, en af hverju getum við ekki verið að framleiða flugvélar til útflutnings, litlar flugvélar sem hæfa þessum stuttu leggjum? Af hverju getum við ekki farið að framleiða basalttrefjar eins og hafa verið hugmyndir um mjög lengi?

Ég er sammála með matvælaframleiðsluna, hátæknimatariðnað, hvort sem við erum að tala um kálver, eins og það hefur verið kallað, eða kjötrækt eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hefur ítrekað talað um. Það er svo margt sem við gætum gert en til þess að geta náð árangri þá þurfum við að stilla hvötunum rétt upp og vegna þess að hvatarnir hafa verið svo handahófskenndir svo lengi þá hafa kannski einhver tækifæri glatast að óþörfu. Ég held að með samtakamætti um svona mál sé alla vega hægt að hlúa betur að þörfunum sem koma upp, nýjum hugmyndum og öðru. Að því leyti til ætla ég að vera ósammála einu sem hv. þingmaður sagði í upphafi ræðu sinnar sem er að Píratar og Framsóknarflokkur séu ólíkir flokkar. (SilG: Sumir halda það.) Sumir halda það, en ég held einmitt að við getum verið þokkalega samstiga varðandi ýmsa hluti ef við setjumst niður og ræðum málin.