151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[14:52]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við könnumst auðvitað við þetta jarm í gömlu íhaldsflokkunum um að það séu komnir allt of margir flokkar. Það getur vel verið að það séu margir flokkar en það sem skiptir máli er að það eru komnar nýjar raddir sem ýta við, rugga bátnum, sem ganga ekki að hefðbundnum lögmálum sem gefnum heldur spyrja spurninga: Af hverju erum við með þetta svona?

Ég vil líka taka undir það sem hv. þingmaður sagði um valdeflingu sveitarstjórnarstigsins eða nærsamfélagsins. Það sem við í Viðreisn höfum m.a. lagt fram, með tillögum okkar um markaðsleiðina í sjávarútvegi, uppboðsleiðina eða markaðsleiðina, er að hluti af því auðlindagjaldi sem þar kemur í gegn fari í uppbyggingu á innviðum, í Innviðasjóð, á landsbyggðinni, þangað sem uppsprettan er, þaðan sem auðlindin og auðlindanýtingin kemur. Hluti af því á einmitt að fara til sveitarfélaganna og þau eiga að hafa meira sjálfdæmi um það m.a. hvernig þau ráðstafa byggðakvóta. (Forseti hringir.) Ég vona að það frumvarp komi sem fyrst hingað frá sjávarútvegsráðherra þannig að við getum farið að ræða aukið vald og auknar heimildir og sjálfsákvörðunarrétt til sveitarfélaganna sjálfra á landsbyggðinni. (BLG: Heyr, heyr.)