151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:02]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög áhugavert innlegg og að sjálfsögðu eitthvað sem við eigum að taka með inn í umræðuna. Ég hef fylgst með hv. þingmanni. Við hittumst fyrst á sínum tíma þegar hv. þingmaður var ötull starfsmaður hjá FabLab úti í Vestmannaeyjum og ég kom þangað sem ráðherra. Hv. þingmaður hefur einmitt öðlast reynslu og þekkingu í gegnum tíðina til að vinna að hagsmunum Suðurkjördæmis og um leið að hagsmunum heildarinnar, að draga fram þá þekkingu og reynslu sem hann fékk í gegnum nýsköpunarmál o.fl. í Vestmannaeyjum, frá þeim störfum sem hann hefur sinnt víða. Þannig hefur það gagnast heildinni líka. Þannig finnst mér landsbyggðarkjördæmisþingmenn líka geta sinnt heildinni. Fólk verður að átta sig á því að þannig er hægt að vinna.

Meginatriðið í þessu er að við drögum fram þá samkennd sem mér finnst skipta svo miklu máli, að fólk á landsbyggðinni setji sig í spor okkar sem búum hér og við sem búum hér gerum það á móti. Það þurfum við að gera betur, vinna betur með. Það er regluverk hérna, þessar óskráðu reglur sem ég talaði um áðan, um að þeir flokkar sem eiga ekki þingmenn í viðkomandi kjördæmi fái ekki aðgang að formlegum fundum kjördæmaþingmanna með helstu hagaðilum heima í kjördæmi. Mér finnst það bagalegt. Mér finnst þetta gamlar, forneskjulegar reglur og ég hefði viljað sjá flokka, þó að þeir séu hundgamlir, sýna smá forystu, sýna ákveðna framsýni með því að segja: Heyrðu, breytum þessu fyrirkomulagi. Ef þið í Pírötum til að mynda eruð tilbúin til þess að þræða með okkur Austurlandið, Norðurlandið, skilja að við þurfum flughlaðið á Akureyri, skilja að við þurfum betri rafmagnsleiðslur hjá Landsneti o.fl., fyrir norðan, austan eða vestan, verið þá með okkur. Og við viljum það. (Forseti hringir.) Það er þannig sem við eigum að fá alla þingmenn framtíðarinnar til þess að vinna þegar þeir koma í þennan sal, þannig að þeir séu þingmenn alls landsins.