151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

200. mál
[18:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans. Ég styð þetta mál. Það var sjálfsagt og eðlilegt að unnin yrði bragarbót á því sem málið lýtur að, vegna þess að dæmi eru þess, eins og nefnt hefur verið, að stundum hafi fresturinn verið liðinn og það hafi skapað óhagræði.

Ég vildi koma inn á annað mál sem er þessu þó skylt, þ.e. lokunarstyrkina, sem samþykkt var hér í vor. Ég hef áður komið inn á að nauðsynlegt hefði verið að framlengja það ákvæði vegna þess að það virðist hafa verið einhver handvömm, a.m.k. voru umsóknareyðublöð Skattsins forskráð og sú staða kom upp að fjöldi fyrirtækja fékk ekki lokunarstyrk. Það gerði það að verkum að fyrirtæki sem ekki eru virðisaukaskattsskyld, eins og t.d. líkamsræktarstöðvar og fleiri, gátu ekki sótt um. Sum þeirra höfðu samband við Skattinn og fengu svo tilkynningu síðar um að þau hefðu fengið styrk en önnur ekki. Þarna er eitthvert misræmi sem ég held að nauðsynlegt sé að skoða. Svo lentu önnur fyrirtæki í einhverri túlkun Skattsins varðandi skilyrðin og fengu ekki styrk. Ég held því að mikilvægt sé, herra forseti, að reyna að koma til móts við þau fyrirtæki sem ekki fengu styrk, annaðhvort vegna þess að um ranga forskráningu Skattsins á umsóknareyðublöðum var að ræða eða vegna túlkunar Skattsins

Mig langar að fá álit hv. þingmanns og formanns efnahags- og viðskiptanefndar á því hvort til greina komi að endurskoða þetta, (Forseti hringir.) að lokunarstyrkir verði yfirfærðir að nýju og menn geti sótt um þá sem ekki gátu það þegar þetta var (Forseti hringir.) opið úrræði.