151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

200. mál
[18:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta eru sannarlega góðar fréttir, held ég, að hlustað hafi verið á þessar ábendingar. Að stjórnvöld hafi hlustað á þær og komi til móts við þá sem ekki náðu eða fengu höfnun á lokunarstyrkjum, m.a. út af einhverjum tæknilegum atriðum. Það er ákaflega mikilvægt í þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, lokunarstyrkjum, uppsagnarstyrkjum og fleira, að gætt sé samræmis og að allir sitji við sama borð. Það er mjög mikilvægt. Annað veldur tortryggni og það er aldrei gott í aðgerðum sem þessum.

Það væri auk þess áhugavert, og kannski allt í lagi að koma því á framfæri hér, að fá upplýsingar um hve mikið af þeim stuðningi sem samþykktur var í vor hafi raunverulega gengið út. Það væri kannski ein leið til þess að mæla árangur aðgerðanna, t.d. hvað áætlað var í lokunarstyrki, um hve mikið var sótt og hve mikið var síðan greitt út. Það væri mjög áhugavert að þær upplýsingar lægju fyrir. Margir hafa lent í miklum erfiðleikum vegna uppsagna og vegna lokunarstyrkja og þess háttar, þannig að það er mikilvægt að úrræðið nýtist sem flestum og að menn hafni ekki umsóknum út af einhverjum tæknilegum atriðum, forskráningu eyðublaða sem ekki voru rétt meðhöndluð o.s.frv. Svo þurfa túlkanir Skattsins að vera mjög gagnsæjar og menn þurfa að fá vandlega umfjöllun um sín mál.

Herra forseti. Að lokum þakka ég fyrir þetta góða svar, að verið sé að taka á því máli sem ég hef rætt hér áður varðandi lokunarstyrki.