151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[14:51]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (U):

Herra forseti. Ég fagna hér sérstakri umræðu um loftslagsmál og tel að hv. forsætisnefnd ætti að setja sérstaka umræðu um loftslagsmál á dagskrá þingsins með reglubundnum hætti vegna mikilvægi loftslagsmála nú og í nánustu framtíð. Það er nefnilega svo að þrátt fyrir að heimsfaraldur ríki, sem hefur mjög afdrifaríkar afleiðingar á allt líf okkar og fólks um allan heim, eru loftslagsbreytingar jafnvel stærra og umfangsmeira verkefni sem mun ekki bara umbreyta lífi og lífsháttum okkar heldur líka kynslóðanna sem koma á eftir okkur.

Stöndum við við skuldbindingar Íslands þegar kemur að Parísarsáttmálanum? er stóra spurningin sem við erum að glíma við í þessari umræðu. Til að svara þeirri stóru spurningu verðum við að vara okkur á talnaleikfimi og spuna þegar kemur að tölum og loftslagsmálum. Í útdrætti úr nýjustu landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda, sem Umhverfisstofnun birtir og sér um, kemur fram að losun Íslands á árunum 1990–2018 á gróðurhúsalofttegundum hafi aukist um 30%. Þessi aukning tekur ekki inn losun vegna alþjóðaflugs og alþjóðasiglinga. Það er áhugavert í ljósi þess sem hæstv. umhverfisráðherra talar um, að losun gróðurhúsalofttegunda hafi aukist á árinu 2017 til ársins 2018. Þessar tölur taka heldur ekki til losunar frá flugi og siglingum. Nýrri tölur eru ekki til en það verður áhugavert að sjá þær.

Þessi mikla aukning frá árinu 1990 er aðallega til komin vegna aukningar í málmframleiðslu á Íslandi, en í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum er ekkert kveðið á um bindandi aðgerðir þegar kemur að iðnaði, stóriðju eða flugsamgöngum. Það er miður og því þarf að breyta. Það er hreinlega ekki rétt, herra forseti, sem haldið er fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, að Ísland ætli að draga úr losun langt umfram skuldbindingar. 29% samdráttur var lægsta viðmiðið sem Ísland fór fram á í samningaviðræðum við ESB og það var hreinlega ekki fyrr en eftir að samningurinn við ESB náðist að 40% markmiðið, sem hæstv. ráðherra talar stöðugt um, varð að veruleika, fyrst þá. Það þarf að tala skýrt og rétt um þessi atriði. Og líka að endurskoða markmiðin nú þegar ESB hefur uppfært sín markmið upp í 60%. Hvar ætlar Ísland að vera þá?

Hæstv. forseti. Í gær mælti hv. þm. Andrés Ingi Jónsson fyrir frumvarpi okkar beggja (Forseti hringir.) um breytt viðmið þegar kemur að loftslagsmálum. (Forseti hringir.) Tími minn er á þrotum, en ég vil samt sem áður benda á það frumvarp vegna þess að (Forseti hringir.) þar er verið að uppfæra markmið okkar. Þar er metnaður. Það er verkefni okkar til framtíðar og núna.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á að ræðutími í þessum dagskrárlið er tvær mínútur.)