151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[15:03]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu hér í dag. Þó að ríkisstjórnin hreyki sér af því, eins og hæstv. ráðherra gerði áðan, að hún sé að gera betur, sem er sannarlega rétt og satt, er staðan samt sem áður sú að það dugar engan veginn til — engan veginn.

Árið 2020 hefur sýnt okkur hversu hratt breytingar geta orðið. Fyrr á árinu sáum við samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það var því miður aðeins tímabundið en sýnir að þetta er hægt. Nú hafa fjölmargar þjóðir nýtt tækifærið og sett kraft í loftslagsaðgerðir í tengslum við Covid og hefur framkvæmdastjórn ESB lagt til markmið um 60% samdrátt gróðurhúsalofttegunda. Á sama tíma stefnir Ísland á 35% samdrátt, sem er í raun aðeins 9% samdráttur í heildarlosun ásamt landnotkun og ETS. Hæstv. ráðherra nefndi 29% samdrátt í ræðu sinni, sem dugar engan veginn til að ná kolefnishlutleysi 2040. Samdrátturinn verður að ná a.m.k. 50% ef við ætlum að ná því markmiði. Og við verðum að ná því markmiði.

Herra forseti. Við getum tekið mun hraðari og stærri skref. Það er margt sem við þurfum að gera, en fyrst og síðast þurfum við að draga úr losun. Við þurfum líka að efla stjórnsýslu loftslagsmála og langar mig til að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort búið sé að fjölga starfsmönnum ráðuneytisins á skrifstofu loftslagsmála í samræmi við ábendingar Capacent. Við þurfum líka að setja aukna hvata til breytinga. Ég spyr hæstv. ráðherra enn og aftur hvort hann telji ekki að nú sé tækifærið til að hækka kolefnisgjaldið og hækka innflutningsgjöld á bensín- og dísilbíla.

Þá spyr ég: Telur hæstv. ráðherra ekki of seint að koma fram með frumvarp til laga um kolefnishlutleysi, í janúar á næsta ári? Hefði ekki verið heppilegra að leggja það fram nú í haust, þ.e. ef það er raunverulegur vilji hjá ríkisstjórninni til að klára málið á þessu þingi? Sýnum metnað, herra forseti. (Forseti hringir.) Og þar á ríkisstjórnin að draga vagninn.