151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[15:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Eitt af einkennum frjálslyndra samfélaga er athafnafrelsi, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja. Hlutverk stjórnvalda nú er að skapa umgjörð þar sem frelsið og fjölbreytnin nýtur sín til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni, með það stóra viðfangsefni í huga að skapa umgjörð sem gerir atvinnulífinu betur kleift að vera öflugur þátttakandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Stjórnvöld þurfa að taka að sér að ýta undir græna hvata, tryggja að losun sé í samræmi við ströngustu kröfur og búa einfaldlega til umhverfi sem auðveldar fyrirtækjum að taka umhverfissjónarmið inn í framleiðslu og framboð á vöru og þjónustu.

Besta leiðin til að draga úr mengun er að tryggja að þeir sem valda henni greiði kostnaðinn af henni. Slíkir grænir hvatar mega þó ekki verða of íþyngjandi heldur þarf að nýta þá til mótvægisaðgerða annars vegar, t.d. í gegnum loftslagssjóð sem fyrirtæki gætu sótt hvata sinn til, og hins vegar til lækkunar á öðrum opinberum gjöldum.

Það er líka mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf taki höndum saman við að stuðla að almennri vitundarvakningu. Ný og krefjandi úrlausnarefni kalla á nýjar lausnir. Þær lausnir eru mun líklegri til að verða til í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífsins þar sem nýsköpun og vöruþróun eru miklu vænlegri til árangurs en eingöngu boð og bönn. Þetta vitum við. Sjálfbærni, samkeppni og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Þannig eigum við mesta möguleika á því að standa vörð um náttúruna okkar og standa vörð um samfélagið okkar.