151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[13:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ein praktísk spurning. Segjum sem svo að spurningin væri, bara til að reyna að gera þetta að almennri spurningu: Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlandsflugs og kennslu- og sjúkraflugs verði í Hvassahrauni? Það gæti þess vegna verið á Akureyri eða Egilsstöðum, það skiptir ekki máli. En segjum sem svo að spurningin væri þannig að við værum að spyrja um hvort við ættum í raun að færa flugvöllinn í Hvassahraun og að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu væri já, það væri það sem ætti að gera. Er þá ekki rétt að sveitarfélagið þurfi samt að fara í gegnum allt skipulagsferlið og að jafnvel geti 20% íbúa sveitarfélagsins kallað eftir íbúakosningu um hvort slík breyting ætti að fara fram og hafnað því að taka við flugvellinum, t.d. í Hvassahrauni?

Gætu íbúar sveitarfélagsins, sem lagt er til að hafa flugvöllinn í, ekki einfaldlega haldið íbúakosningu og sagt nei, og þar með myndi málið enda?