151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:30]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Stundum undrast maður umræðuna. Hver er að tala um 10 metra há tré? Þessi tré eru t.d. ekki 10 metra há. (Gripið fram í.) Við verðum bara að kynna okkur málin, fara efnislega í gegnum þau og hafa vara á þessu öllu. Nú er búið að hækka aðflugslágmörkin inn að brautinni út af þessu. Það skiptir máli í hinu stóra samhengi hlutanna hvort menn lagi það sem búið var að gera samkomulag um í þessu atriði. Vandamálið í þessu ferli er að aldrei er staðið við það sem samið var um. Hugsið ykkur að árið 2013 mátti ekki reisa eða stækka flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík nema að ná samkomulagi í þessu máli. Svona er allt þetta mál búið að vera í öll þessi ár, í einhverri þvælu. Hversu mikið mál getur það verið að taka þessi tré og laga aðflugið að vellinum svo að það standist þau aðflugslágmörk sem eru eðlileg fyrir notkun vallarins? Við komumst ekki langt áfram ef tré sem eru komin upp í hindrunarflötinn, sem eru miklu hærri en 10 metrar, svo að það sé bara sagt. (Gripið fram í.) Þannig að það á bara að standa við þau samkomulög sem hafa verið gerð. Þetta er eitt af því sem ég minntist á áðan, samkomulagið sem var gert í nóvember í fyrra. Það er ekki verið að vinna eftir því samkomulagi og klára þau mál sem snúa að því ferli.