151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Alþingi er gömul og virðuleg stofnun og mjög mikilvægur hlekkur í gangvirki lýðræðisins á Íslandi. Lýðræði krefst þess að við getum átt gott samtal hér á vettvangi Alþingis og að við getum líka veitt hvert öðru aðhald, að þingið veiti framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald. Þess vegna er mjög mikilvægt að samtal hér á Alþingi geti farið fram með eðlilegum hætti.

Nú er það svo að Alþingi, eins og allar aðrar stofnanir, fyrirtæki og heimili í landinu, hefur ekki farið varhluta af þeirri veiru sem ógnar samfélagi okkar núna. Það hefur að mörgu leyti tekist mjög vel hér á Alþingi að halda þinginu starfhæfu og þar höfum við öll hjálpast að. Ég bendi á þetta hér og nú vegna þess að lýðræðið getur verið býsna brothætt. Um það sjáum við mörg dæmi víða um heim og fylgjumst með því, sum með öndina í hálsinum, þessa stundina. Það sem ég vil draga fram er að við þurfum að halda okkar striki. Við þurfum að gæta þess að við getum haldið þinginu starfandi, lýðræðinu virku og við verðum að búa okkur undir það að við þurfum að takast á við þessi vandamál til lengri tíma. Við þurfum að vera alveg skýr á því öll saman að við ætlum að sjá til þess að þingið starfi og lýðræðið (Forseti hringir.) sé virkt hér á þessum vettvangi.