151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er með þráhyggju. Þráhyggju gagnvart vandaðri lagasetningu. Á lokadögum þings í vor barst Alþingi stórt mál er varðaði hlutdeildarlán og áttu þinginu að gefast tvær vikur til afgreiðslu þess stóra máls. Því lauk ekki í vor heldur var því frestað fram á stubbinn svokallaða og gáfust þá þrír, fjórir dagar til viðbótar til afgreiðslu málsins. Á vefmiðlinum Kjarninn hefur nú Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt skrifað mjög áhrifamikla grein fagmanns sem ber yfirskriftina „Af ást til fagmennskunnar“. Ég vil leyfa mér að lesa hér upp úr greininni til að benda þingheimi á alvarleika málsins og ekki síst benda stjórnvöldum á alvarleika málsins þegar ráðherrar leyfa sér að bjóða Alþingi upp á þessi vinnubrögð. Ég óttast að það þing sem við erum á núna í vetur, kosningavetur, verði þar engin undantekning. Með leyfi forseta, segir Borghildur:

„Þess vegna er það þyngra en tárum tekur taki að lesa yfir og gera sér grein fyrir áherslum og ég leyfi mér að segja algjöru metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar er kemur að uppbyggingasýn og íbúðarkaupum til handa borgurum þessa lands.“

Höfundur leyfir sér að segja að það frumvarp sem þarna var samþykkt vinni gegn og sé til höfuðs fagmennsku. Hún segir að við gerð frumvarpsins hafði verið leitað samráðs hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins og byggingaraðilum en ekki skipulagsfræðingum, ekki einu sinni Skipulagsstofnun, ekki arkitektum, ekki landslagsarkitektum. Nei, það var ekki leitað álits fagfólks í greininni.

Þetta eru harkaleg skrif frá fagkonu í stéttinni, frá arkitekt. (Forseti hringir.) Ég vil líka benda þeim sem áhuga hafa á þessu máli að lesa umsögn Arkitektafélags Íslands við reglugerð ráðherra sem liggur núna á samráðsgátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)