151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Eins og ég segi eru sóknarfærin í íslenskum landbúnaði gríðarleg, en þá þarf líka að bregðast við. Það hefur verið farið hér yfir landbúnaðarkerfið sem menn eru eitthvað viðkvæmir fyrir að ég kalli gamaldags. Þetta er kerfi sem hefur að meginhluta til verið byggt upp af tveimur flokkum sem hafa ekki að mínu mati byggt upp þannig kerfi að þau veiti bændum sjálfum frelsi til að hreyfa sig, frelsi til að ákveða sjálfir í hvað þeir vilja beina kröftum sínum, hvað þeir telji best fyrir íslenska náttúru, fyrir íslenskan markað o.s.frv. Við getum ekki hjá því litið að samkvæmt erlendum skýrslum, m.a. OECD, eru íslenskir neytendur að greiða með hæsta verði fyrir landbúnaðarafurðir en bændur eru að fá eitt lægsta skilaverðið til sín innan sama svæðis. Það er eitthvað brogað þar í kerfinu og menn verða að horfast í augu við það.

Ég er sammála því að þetta sé eitthvað sem íslenskir neytendur vilja og það hafa þeir sýnt með kaupum sínum á íslensku grænmeti og öðrum afurðum. Við erum jafnvel reiðubúin til þess að borga hærra verð fyrir íslenskar vörur af því að við vitum hvað við erum að fá. Við vitum hvaðan þær koma, við vitum hvernig þær eru. En það þarf ekki að vera, eins og við sjáum, að þær tegundir af íslenskum landbúnaðarafurðum, að þau svið sem eru undir hvað mestum samkeppnishömlum, m.a. í mjólkurvörum, fari á hærra verði til neytenda en annars staðar. Þar sem samkeppnisreglur gilda ekki, almennar samkeppnisreglur, eins og í mjólkinni, er hærra verð til neytenda, það hafa allar kannanir og samanburðarkannanir sýnt. Þannig að við getum lagað það án þess að verð til bænda lækki. Ég held hins vegar að þetta fari saman, þ.e. hagsmunir neytenda og bænda, og hafi alltaf gert. Þetta er eitthvað sem við eigum að skoða sérstaklega.

Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum hvaða leiðir við getum notað á afurðastöðvunum. Það er mjög sérstakt að afurðastöðvarnar geti, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á áðan, allt í einu bara skert afurðaverð til bænda með einu pennastriki. Hér hefur verið kallað eftir auknu samstarfi á milli afurðastöðva. Það er bara í lagi svo lengi sem menn fara að samkeppnislögum og leiðsögn Samkeppniseftirlitsins. Ég veit það af minni reynslu, minni skömmu reynslu í landbúnaðarráðuneytinu, að það var reynt að fara í þessa samvinnu. Þegar menn voru að tala um að það væru að hrúgast upp tonnin öll af lambakjöti fóru menn fram á að menn færu í samstarf. Það var reynt að koma á útflutningsskyldum, sem er ekkert annað en ákveðin niðurgreiðsla af hálfu ríkisins. Gott og vel. Menn skoðuðu það en voru ekki reiðubúnir til að veita allar upplýsingar sem hefði þurft til þess að það væri heimilað að fara í samstarf. Þannig að ég segi: Já, við skulum skoða allt svona samstarf svo lengi sem það er gert á grunni samkeppnisreglna, gegnsæis og frelsis. Okkur er ekkert að vanbúnaði ef það er skoðað. Ef það er eitthvað sem bændur hafa kvartað undan við mig, og hafa gert í hinum ýmsum samtölum síðustu misserin, þá eru það afurðastöðvarnar og að þeir hafi lítið svigrúm í stöðu sinni gagnvart þeim. Þetta er eitthvað sem við verðum að fara að taka á og skoða betur. Ég er reiðubúin til að skoða allar leiðir svo lengi sem þessi grundvallarprinsipp eru höfð að leiðarljósi.

Ég vil aðeins koma inn á menntunarmál í landbúnaði. Ég held að þar séu einmitt þættir sem við eigum að skoða mun betur. Ég tel einboðið að sérstaklega verði tekið utan um Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi. Við verðum að fara að horfast í augu við að núverandi fyrirkomulag gengur ekki. Ég held að ekki sé stutt nægilega vel undir þá grein og það hefur verið kallað eftir því af hálfu garðyrkjubænda að það umhverfi allt verði skoðað. Ég held að stjórnvöld hljóti að taka þessar ábendingar betur til sín. Það hefur ýmislegt verið reynt í gegnum tíðina en það hefur ekki skilað sér og þá þurfum við að leita annarra leiða.

Ég vil hins vegar vara við því að menn ætli að ræða landbúnaðarmálin með því að reyna að taka alltaf þennan hælkrók í Evrópusambandið. Það er margt hægt að gagnrýna í Evrópusambandinu en ég er sannfærð um það, eftir að hafa skoðað skýrslur og rætt við bændur í öðrum löndum, (Forseti hringir.) að þeir eru bara þokkalega sáttir við stöðu sína innan Evrópusambandsins. Ég held hins vegar að við eigum að ræða (Forseti hringir.) þessa þætti sem og innflutning frá Bandaríkjunum með það í huga að við viljum samkeppni (Forseti hringir.) en við viljum líka halda áfram að efla íslenska landbúnaðarframleiðslu. En það verður ekki gert með því að tala niður samningsaðila okkar, hvort sem þeir eru innan Evrópusambandsins eða frá Bandaríkjunum. (Forseti hringir.) Að því sögðu vona ég að við náum góðri umræðu um þetta mál í nefnd þingsins.

(Forseti (GBr): Forseti minnir hv. þingmenn á tímamörkin.)