151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er prýðistillaga sem liggur hér fyrir okkur. Flutningsmaður talaði um skattana, útsvar og fasteignaskatta sveitarfélaganna. Það fékk mig til að hugsa um orð sveitarstjórnarráðherra og einnig fjármálaráðherra, sem hafa talað um að ekki sé hægt að styrkja sveitarfélögin nema þau fullnýti tekjustofna sína. Á sama tíma lækkar ríkisstjórnin tekjuskatt, lækkar skatta og álögur, sem er góð hagstjórn í þessu ástandi, en hún neitar sveitarstjórnum um að gera slíkt hið sama. Enn fremur er ríkið að fara í auknar opinberar framkvæmdir, en í rauninni kemur það í veg fyrir að sveitarstjórnir og mörg fyrirtæki geri slíkt hið sama. Þannig að opinber fjárfesting minnkar í heildina. Þetta er rosalega áhugaverð staða sem þarna er uppi, að ríkið tekur allt á sig, reynir að gera allt sem er í rauninni rétt að gera í niðursveiflu; að minnka álögur og auka svigrúm fólks og fyrirtækja, en kemur í veg fyrir að hægt sé að gera það sama á sveitarstjórnarstiginu.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverja innsýn í það hvernig þetta samband virkar eiginlega ef það er stefna stjórnvalda að gera eitt með annarri hendinni en öðruvísi með hinni.