151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

aðgerðir í þágu sveitarfélaga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

43. mál
[16:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvort sem það er raunveruleg spillingarhætta eða bara ásökun um spillingarhættu — það er það, held ég, sem sveitarstjórnarfólk vill forðast og þess vegna hafa verið settar enn strangari reglur þegar kemur að innkaupum sveitarfélaganna. Mér finnst full ástæða til að skoða þennan þátt þarna inni en kannski bara í breiðara samhengi. Ég held að við þurfum að skoða þessi lög um opinber innkaup sem eru gríðarlega mikilvæg, og ég ætla ekki að draga úr því, og ég held að við höfum náð miklu fram í hagræðingu, sérstaklega hjá ríkinu, með þessum lögum og framkvæmd þeirra. En einhvers staðar eru þarna fingurbrjótar og við þurfum að finna þá og laga það.

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan þá þekki ég ekki sérstaklega málefni Reykjanesbæjar eða rekstur hans. En það hefur alla vega lengi verið talað um mikla erfiðleika á Suðurnesjum og atvinnuleysið var þar töluvert, ef ég man rétt, fyrir þá kreppu sem nú ríkir. Hv. þingmaður kom inn á alþjóðaflugvöllinn og ég trúi því og treysti að viðspyrnan hér á landi verði öflug og verði hröð. Þegar ferðaviljinn vaknar aftur og landið opnast þá efast ég ekki um að hingað til Íslands munu erlendir ferðamenn koma í milljónatali til að njóta þess að vera úti í okkar fallegu náttúru. Þar eru vissulega tækifæri fyrir Reykjanesbæ.

Ég skil ákallið þaðan, ég skil það. Það er ekkert samfélag sem á að þurfa að búa við slíkt atvinnuleysi. Þá er ég einfaldlega að segja: Í mínum huga er það stóra málið, og fókusinn á að vera á það öllum stundum, að skapa tækifæri til atvinnusköpunar í stað þess að horfa bara á millifærslukerfin okkar og plástra sár. Atvinna, atvinna — það er leiðin út úr þessu og það hlýtur að blasa við að í Reykjanesbæ vantar fyrst og fremst aukin atvinnutækifæri.