151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

árangurstenging kolefnisgjalds.

52. mál
[17:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið skemmtilegt að í síðustu útfærslu málsins kom svo skýrt fram í umsögn Umhverfisstofnunar hvað við stöndum illa varðandi tölur og upplýsingar almennt um loftslagsmál og þennan tímafaktor, að það sé jafnvel tveggja ára töf á tölum sem hægt er að grunda ákvörðunina á. Ég er að reyna að forma þetta í spurningu til að fá þingmanninn aðeins til að ræða þetta við mig vegna þess að síðan erum við með hina hliðina, að gjaldtaka ríkisins er ákvörðuð einu sinni á ári. Við erum þar með dálítið stífan tímafaktor. Eins skemmtileg og hugmyndin er þá velti ég því aðeins fyrir mér: Er raunhæft að við séum með svona dýnamískt apparat á milli tveggja stífra kerfa sem eru þar að auki á mikilli tafakeyrslu? Það er annað.

Hitt er að við töluðum hérna áðan um núllpunktinn. Mig langar að tala um lokapunktinn líka. Hver eru markmiðin? Parísarsamningurinn snýst um að ríki heims skuldbinda sig að reyna að ná að halda hlýnun innan við 1,5°C en alls ekki yfir 2°C. Þetta útfæra ríkin síðan með einhverjum prósentum í samdrætti í losun sem er það sem að kolefnisgjaldið myndi tala við. 40% markmið ríkisstjórnarinnar í dag er t.d. löngu úrelt. Það þarf að uppfæra það á þessu ári og væntanlega þarf að uppfæra það einu sinni eða tvisvar fram að því að Parísarsamningurinn nái á endapunkt. Hvaða markmið værum við þá að setja sem endapunkt til að miða þennan línulega samdrátt við?