151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:33]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Íslendingar vilja aukna velferð umfram skattalækkanir. Þetta sýna skoðanakannanir. Eitt af lykilatriðunum í jákvæðri framfaraþróun er að tryggja nýliðun lækna og aðstreymi nýrrar þekkingar og reynslu. Það er því váleg staða þegar þeim þætti er ógnað til lengri eða skemmri tíma. Nýliðun þarf að eiga sér stað á öllum sviðum læknisþjónustunnar. Þetta sagði Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, í leiðara Læknablaðsins fyrir um tveimur árum síðan. Í sömu grein segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa kallað eftir samfélagsumræðu um skipulag heilbrigðiskerfisins en óljóst er hvert stefnir af þeirra hálfu. Læknar hafa lýst sig reiðubúna í slíkt samtal.“

Síðan þessi orð féllu eru liðin um tvö ár og kjörtímabilinu er óðum að ljúka. Samningar við sérgreinalækna eru lausir og hafa verið það frá áramótum. Þrískipting sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu lækna er mikilvægur þáttur í að efla og styrkja kerfið heildrænt. Skipulag kerfisins verður að veita sveigjanleika til framfara í læknisfræði og aðgengi sjúklinga ásamt hagkvæmni og nýliðun. Þriðja stig heilbrigðisþjónustunnar er þyngsta og jafnframt kostnaðarsamasta stig kerfisins. Þar eru flóknustu tilfellin, þ.e. veikustu sjúklingarnir, og flóknustu aðgerðirnar. Til að létta á þessum lið þjónustunnar þarf að styrkja fyrsta og annað stig. Það er m.a. gert með því að færa þá læknisþjónustu og starfsemi út fyrir spítalann sjálfan í eins miklum mæli og hægt er. Grundvallarþátturinn í því að gera þetta er að fyrir liggi góðir samningar við sérgreinalækna sem þá geta létt á spítölunum og saxað á hina margumræddu biðlista eftir valkvæðum aðgerðum.

Ég vil einnig þakka fyrir þessa umræðu.