151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu og tímabæru umræðu. En það er ekkert launungarmál að það er gríðarlegur aðstöðumunur á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar þegar kemur að aðgengi fólks að sérgreinalæknum. Íbúar sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þurfa gjarnan að leggja á sig töluvert ferðalag með tilheyrandi kostnaði og vinnutapi til að fá þjónustuna. Slíkt getur einnig gert það að verkum að fólk veigrar sér við að nýta sér þjónustuna, sem getur um leið skert lífsgæði og heilsufar fólksins til lengri tíma. Auðvitað á heilbrigðisþjónustan að vera aðgengileg öllum. Mér finnst gott að greina það viðhorf hjá heilbrigðisráðherra, sem unnið hefur ágætlega að þessu. Við hljótum öll að vera sammála um að þessa þjónustu þarf að bæta.

Neikvæða hliðin er sú að fólk veigrar sér við að nýta sér þjónustuna vegna slæms aðgengis. Það er alvarleg staðreynd og endurspeglar og undirstrikar um leið aðstöðumuninn á milli íbúa landsins. Auðvitað óttast ég og fleiri að þetta bitni hvað harðast á til að mynda eldra fólki og þeim sem tilheyra viðkvæmum hópum. Lögum samkvæmt eiga heilbrigðisstofnanir að veita heilbrigðisþjónustu. Sérgreinaþjónusta fellur einhverra hluta vegna ekki þar undir og í fjölmiðlaumfjöllun síðustu mánuði hefur ítrekað komið fram að ekkert í samningum Sjúkratrygginga Íslands hvetur eða skyldar sérgreinalækna til að veita slíka þjónustu. Ég vil undirstrika að þar er ekki við sérgreinalækna að sakast. Þar á ráðherra og kerfið sjálft að gera betur í að finna lausnir sem mæta þörfum sjúklinga, landsmanna, en ekki þörfum kerfisins sem slíks.

Það þarf að þroska umræðuna, samtalið. Það þýðir ekki bara að benda í allar áttir, það þarf að vinna í þessu. Ég trúi því að allir, ráðherrar, læknar, ríkið, heilbrigðisstofnanir, vilji finna lausn á vandanum, en til þess þarf markvisst samtal og sýn og vilja að ná saman hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Ábyrgðin er hjá þeim sem gera samningana. Það er þeirra að skapa hvatana og það er þeirra að tryggja þjónustuna.