151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni.

[11:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Það er ljóst að í gegnum tíðina, meðfram því sem Reykjavík hefur eflst í hlutverki sínu sem höfuðborg, er þjónusta sérgreinalækna á landsbyggðinni eitt af því sem hefur miður farið. Það vilja ekki allir búa á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt að það sé raunverulegur valkostur fyrir fólk að velja sér stað til búsetu og þar sé aðgengileg og góð heilbrigðisþjónusta. Það er því fagnaðarefni að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sett það í forgang að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og skilgreina hana sem fyrsta stigs þjónustu með áherslu m.a. á teymisvinnu, sem svo leiðbeinir fólki með næstu skref, t.d. að vísa því til sérgreinalækna. Þá er gríðarlega mikilvægt að fjarheilbrigðisþjónusta hefur verið efld í miklum mæli í tíð þessarar ríkisstjórnar svo fólk geti verið statt hvar sem er og fengið grunnþjónustu á heilsugæslu.

Það er svo stærra verkefni að fá sérgreinalækna til starfa úti á landsbyggðinni, hvort heldur í staðlotum eða í heilsársstöðum, því að við þurfum að horfa bæði til aðbúnaðar, sem er kannski ekki til alls staðar og verður það auðvitað aldrei, og við getum kannski ekki heldur ætlast til að öll sérgreinaþjónusta verði í boði. En um leið væri æskilegt að stóru sjúkrahúsin, ég tek undir það, bæru ábyrgð. Það er ótækt að fólk þurfi að ferðast þvert yfir landið, stundum oft í mánuði, til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan hvað slík ferðalög eru óumhverfisvæn er það líka kostnaðarsamt og veldur oft tekju- og vinnutapi og þannig viljum við ekki hafa það.

Þess vegna er mjög mikilvægt að við höfum samþykkt heilbrigðisstefnu sem vísar okkur veginn. Það má vel vera að fólki finnist stefnumótun ekki mjög beitt pólitískt tól en ég tel hana vera það samt. Það er búið að marka stefnu til a.m.k. næstu tíu ára þar sem stendur svart á hvítu að þetta eigi að laga. Það er nú þegar farið að bera ávöxt. Tilraunaverkefni heilbrigðisráðuneytisins með Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur gefið góða raun, það sparaði 850 ferðir íbúa til Reykjavíkur til að leita sér að sérfræðiþjónustu. Það er nefnilega þannig að þegar traust forysta er í heilbrigðismálum þá skilar það árangri.