151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

fiskeldi.

265. mál
[12:18]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi erum við að opna fiskeldislögin sem var síðast breytt á vordögum 2019. Þá voru umtalsverðar breytingar gerðar og lagði atvinnuveganefnd mikinn metnað í þá vinnu, enda skiptir lagasetning og umgjörð miklu máli því að um er að ræða atvinnugrein sem er í miklum vexti hér á landi. Hún er þegar farin að skipta miklu máli og útflutningsverðmæti afurða fiskeldisins var á síðasta ári um 25 milljarðar kr. Verðmætið hefur því tvöfaldast á milli ára og heldur enn áfram að vaxa. Talið er að ef framleiðslan fari í það magn sem burðarþolsgetan segir til um verði útflutningsverðmætið nær 65 milljörðum kr. Þá getum við enn aukið á umsvif og verðmæti fiskeldisins með því að auka fullvinnslu aflans og margfalda því þau störf sem snúa að þessari atvinnugrein líkt og sérstaklega Færeyingum hefur tekist. Fjárfestingar upp á tugi milljarða liggja í greininni og frekari fjárfesting bíður enn frekari leyfa.

Lengi býr að fyrstu gerð og því er hlutverk löggjafans að leggja línurnar. Hér þarf að feta þá hárfínu línu milli þess að byggja upp öfluga atvinnugrein og í leiðinni að huga að auðlindinni og náttúruvernd sem skiptir öllu máli til framtíðar. Heilbrigði dýra og umhverfis er undirstaða þess að hægt verði að byggja starfsemina upp til sjálfbærni sem byggir á vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri stoð. Síðan þarf hið opinbera að tryggja aðhald og eftirlit.

Virðulegi forseti. Hér er verið að opna lögin aftur og með því er mælt fyrir um heimild til að úthluta opinberlega vannýttum lífmassa sem verði forsenda umsóknar um nýtt eða endurskoðað rekstrarleyfi í firði eða á hafsvæðum þar sem fiskeldi er þegar stundað. Eins og segir í greinargerðinni með frumvarpinu mun það stuðla að betri nýtingu fjarða og hafsvæða til fiskeldis til samræmis við markmið laga um fiskeldi.

Ég vil hins vegar segja að ég er yfir höfuð ekki hrifin af útboði sem sanngjarnri úthlutunarleið á nýtingarheimildum sem þessum þar sem hæsta verðtilboð hlýtur hnossið. Mér þykir eðlilegra að ríki og sveitarfélög fái til sín réttmætan hlut af sameiginlegri auðlind í gegnum sérstakt veiðigjald eða eldisgjald líkt og við gerum í dag. Mikið hefur verið rætt um uppboð á kvóta í fiskveiðistjórnarkerfinu hér á þinginu en minna hefur verið rætt um áhrif. Afleiðingin getur verið hörð samþjöppun þar sem þeir stóru í ljósi stærðarhagkvæmni sinnar verða enn stærri. Sömu sjónarmið eiga hér við. Ef aðeins hæsta boð á að ræða ráða ferðinni er ójafn leikur þar sem keppast við annars vegar minni íslensk eldisfyrirtæki og hins vegar stór eldisfyrirtæki sem eru að uppistöðu til í eigu stórra erlendra eldisfyrirtækja. Ég tek það fram að ég fagna aðkomu erlendra eldisfyrirtækja hér við land. Þau komu með fjármögnun og þekkingu í greinina á sama tíma og íslenskir fjárfestar héldu að sér höndum. En íslensku frumkvöðlafyrirtækin sem hófu fiskeldi hér um aldamótin í smáum stíl en hafa jafnt og þétt verið að vinna sig áfram með seiglu og hafa byggt upp reynslu verða hins vegar að fá tækifæri til jafns við aðra til að stækka. Það er atriði sem ég mun leggja áherslu á í atvinnuveganefnd við vinnslu á þessu máli.

Virðulegi forseti. Við það að opna lögin aftur er hægt að nota tækifærið til að bæta þau enn frekar. Við samþykkt frumvarpsins úr þingflokki Framsóknarmanna vildum við hnykkja á þeim atriðum sem ég hef farið yfir en jafnframt viljum við einfalda leið þeirra einstaklinga sem vilja stunda fiskeldi á litlum skala á lögbýlum. Við teljum að gera þurfi skýrari greinarmun á kröfum til eldisaðila í lögum á því hvort um sé að ræða eldi á stórum skala eða eldi sem bændur eða aðrir stunda sér til búbótar.