151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[13:50]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að heyra að hv. þingmaður nefnir hér alla vega tvisvar sinnum orðið góðmennska. Það væri kannski ágætt að heyra það oftar af hálfu hv. þingmanns. Honum er afar umhugað um kostnað við þessa þingsályktunartillögu. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvaða tillögur þingmaðurinn hefur borið upp um að fjármagna heilbrigðiskerfið, sem hefur verið fjársvelt undanfarin ár. Hvaða tillögur hefur hv. þingmaður og hans flokkur borið upp til að fjármagna og styrkja heilbrigðiskerfið til að mæta áföllum?

Vegna þess að hv. þingmanni er mjög umhugað um kostnað og tölur og upphæðir, þá langar mig að minna á að pólska ríkið, Pólland, veitti Íslandi neyðarlán vegna hrunsins árið 2008, 200 milljónir dala eða 2,8 milljarða íslenskra króna. Þetta var tekið af skattfé pólskra ríkisborgara, skattfé pólskra kvenna, sem verið er að skerða réttindi hjá með núverandi niðurstöðu stjórnlagadómstóls og aðgerðum pólsku ríkisstjórnarinnar. Telur hv. þingmaður að við skuldum ekki Póllandi einhvers konar viðleitni í að sýna þessa góðmennsku, sem hv. þingmanni er einhvers staðar umhugað um, þótt ekki væri nema vegna þessarar gjörðar, þeirrar velvildar sem Pólverjar sýndu Íslendingum á tímum þegar við vorum að ganga í gegnum miklar hremmingar?

Ég treysti íslenska heilbrigðiskerfinu fyllilega til að takast á við það sem þessi þingsályktunartillaga felur í sér vegna þess að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er öflugt og gott, og eins og bent hefur verið á fara þessar aðgerðir að mestu leyti fram heima hjá konum.