151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[13:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að afstaða mín til fóstureyðinga er þingheimi kunnug. Ég hef ávallt talað gegn þeim en mun ekki dvelja við það hér. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort flutningsmenn, eins og t.d. hv. þm. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, séu búnir að hugsa þetta mál til enda. Málið er kynnt sem táknræn samstaða með kvenfrelsi í Póllandi og á Möltu. Það er ekkert að því að sýna fólki samstöðu í öðrum löndum, síður en svo. Fóstureyðingarlöggjöfin í þessum löndum er vissulega ströng, án þess að ég fjalli um það hér. En það er síðan annað mál með hvaða hætti við sýnum samstöðu. Það eru skiptar skoðanir um það. Það er hægt að gera með margvíslegum hætti. Almennt er ég þeirrar skoðunar að rödd Íslands eigi að heyrast á alþjóðavettvangi og veit ég að hv. þingmaður og flutningsmaður, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, hefur staðið sig mjög vel í þeim trúnaðarstörfum sem hún hefur tekið að sér fyrir hönd Alþingis á þeim vettvangi.

Mál þetta er lagt þannig upp að það sé ólíklegt að konur fari að streyma hingað til lands í fóstureyðingu. Í greinargerð með tillögunni segir m.a. að ekki sé talið að þetta hafi íþyngjandi áhrif eða afleiðingar fyrir ríkissjóð vegna þess að það séu einungis tvö lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins, Malta og Pólland, sem uppfylli skilyrði sem lögð eru til í þingsályktunartillögunni. Ég hef efasemdir um það, herra forseti, að þetta standist. Þar sem ég sit í fjárlaganefnd hef ég áhyggjur af stöðu ríkissjóðs, eins og ég nefndi í andsvari í þessari umræðu, og þeirri miklu skuldasöfnun sem átt hefur sér stað vegna veirufaraldursins, skuldasöfnun sem eykst dag frá degi og hækkar um 1 milljarð kr. á dag, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur staðfest. Rétt er að benda á að hér á landi er stórt samfélag Pólverja, eins og við þekkjum. Þeim er því vel kunnugt um gæði heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi og hafa eflaust góða reynslu af henni. Samgöngur milli landanna eru með því besta, með beinu flugi. Það er auðvelt að ferðast frá Póllandi til Íslands og til baka.

Í tillögunni segir að kostnaður vegna fóstureyðinga hér á landi ætti ekki að vera fyrirstaða ef viðkomandi kona er með evrópska sjúkratryggingakortið. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á það áðan í andsvari að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af kostnaðinum vegna þess að hann væri greiddur af því ríki þar sem kort er útgefið. Þannig virkar þetta kort. Það ætti þá að vera þannig að pólska ríkið greiddi fyrir það þegar pólskar konur koma hingað í þessar aðgerðir. En ég tel hins vegar harla ólíklegt að pólska ríkið eða stjórnvöld á Möltu fallist á það að greiða fyrir aðgerð sem er ólögleg í þeim löndum en framkvæmd á Íslandi. Ég held að þetta sé eitthvað sem verði að sjálfsögðu að ræða í nefndinni og fá þá fulltrúa pólskra stjórnvalda til að fara yfir það mál.

Við þekkjum öll hið mikla álag sem er og hefur verið á íslensku heilbrigðiskerfi og hv. þm. Ásmundur Friðriksson lagði mikið upp úr því í ræðu sinni. Við þekkjum að fresta hefur þurft fleiri hundruð aðgerðum og mikill fjöldi fólks bíður eftir lausn sinna mála. Ég tel það nokkuð ljóst að heilbrigðiskerfi okkar hafi engan veginn bolmagn til að bæta við sig fleiri aðgerðum. Fóstureyðing er ekki auðvelt verkefni fyrir viðkomandi konu né þær ljósmæður og hjúkrunarfræðinga sem henni sinna. Sumir starfsmenn biðjast undan því að koma að þessum aðgerðum. Í samtölum mínum við þessar starfsstéttir hef ég orðið þess áskynja að álagið sem tengist þeim 1.000 fóstureyðingum sem eru framkvæmdar hér á landi á ári hverju sé meira en nóg miðað við núverandi mannafla og aðstæður.

Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi það hér einnig í andsvari sínu áðan að u.þ.b. 80% allra fóstureyðinga færu í raun og veru fram með lyfjagjöf og jafnvel í heimahúsi. Sjálfsagt hefur þingmaðurinn rétt fyrir sér hvað þetta varðar, um tölur hér á Íslandi. En þetta er mikil einföldun á málinu vegna þess að ég held að það sé nokkuð ljóst að konur sem kæmu hingað í fóstureyðingu, kæmu mjög líklega eftir 12 vikna meðgöngu og þær eru allar framkvæmdir á sjúkrahúsi. Þannig að ég held að ekki sé hægt að setja þetta mál svona fram eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson gerði áðan.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að aðgerðir vegna fóstureyðinga eru ekki eins og venjulegar aðgerðir, og þá á ég við eftir 12 vikna meðgöngu. Þeim fylgir oftast mikið andlegt álag og eflaust er mjög erfitt að setja sig inn í þær aðstæður sem viðkomandi kona er í í þessum erfiðleikum. En ég vil segja að í þessari tillögu finnst mér hafa gleymst að huga að því að á bak við hverja aðgerð er heilbrigðisstarfsfólk.